Pælingar um innflytjenda og byggingamál (varúð, löng og kannski próvó færsla).
Innflytjendamál eru mér hugleikin og hafa verið það lengi. Áhuginn kviknaði fyrst þegar ég eignaðist íranska vinkonu í Kaupmannahöfn, en sú var innflytjandi þar í landi. Hafði flúið frá Teheran með mömmu sinni upp úr 1980.
Fyrir um sjö til átta árum gerði ég mér ferð í miðstöð Nýbúa og átti þar tal við góða konu. Mig langaði svo til að fara af stað með einhverskonar vitundarvakningu sem myndi ala á sympatíu í garð innflytjenda af þeirri tegund sem varla getur búið í eigin landi. Fyrst það er hægt að hafa vitundarvakningu um vélindabakflæði þá hlaut að vera hægt að gera þetta.
Ég vissi að það yrði ekki langt þar til Ísland myndi verða sem önnur Evrópulönd og því um að gera að byrgja brunna og byrja að undirbúa. En svo varð einhvernvegin ekkert úr þessu. Konan í nefndinni hætti og bað mig að tala við þennann og hann benti mér á að tala við hinn og svo koll af kolli og þar sem ég var ein á þessu prívat missjóni mínu þá gafst ég nú upp eftir einhvern tíma og fór að skaffa mér salt í grautinn. Pælingarnar sitja þó enn sem fastast:
Það sem ég velti mikið fyrir mér þessa dagana er hvort eitthvað sé hægt að gera til að koma í veg fyrir neikvæðar afleiðingar þess að hingað koma austur-evrópubúar með mörgum vélum á degi hverjum. Að halda því fram að það verði engar neikvæðar afleiðingar er meðvirknisgeðveiki sem á rót sína í svona happy-go-lucky bamba afneitun á að það séu vandamál sem fylgi þessu.
Það fyrsta sem liggur í augum uppi er að hér á Íslandi búa um 300.000 manns. Í Póllandi búa rúmlega 38 milljónir. Fólkið sem fæðist í því landi hefur í gegnum margar kynslóðir mótað sér allt annað hugarfar til samfélagslegra skyldna en það fólk sem hér fæðist, einfaldlega vegna þess hversu mismunandi fólksfjöldinn er. Við búum í einni fámennustu þjóð heims en Pólverjar eru í 33 sæti yfir þau lönd þar sem flestir búa. Þar er líka margt annað upp á teningnum en hér. Alkóhólimsi (en engar meðferðir), post-kommúnismi (en engin áfallastreituröskunarteymi), peningaskortur og mikil pólitísk spilling.
Það liggur þannig í augum uppi að sá sem hefur alla tíð búið við skort, mannmergð og ýmislegt annað sem ekki býður upp á fjöldaframleiddar afurðir úr garðyrkjubúi mannsandans mun gera sitt besta til að maka krókinn og breyta því ástandi þegar hann kemst loks í (íslenskar) álnir;
Money, money, money
Must be funny
In the rich man's world
Í gærkvöldi horfði ég á heimildarmynd gerða af BBC. Hún er í flokki sem kallast Exposed en þessi þáttur fjallaði um borgarlíf. Hvernig fólk hegðar sér ólíkt í borgum og smábæjum.
Tvær tilraunir voru gerðar til að kanna styrk náungakærleikans út frá fólksfjöldanum m.v. ferkílómetra: Í annari þeirra var frímerkt bréf skilið eftir rétt hjá póstkassa og hin hófst á því að ungur maður lagðist í götuna.... spurningarnar voru -hversu margir munu kanna ástand mannsins og hversu margir setja bréfið í póstkassann?
Í London var það ekki nokkur maður sem setti bréfið í rauða póstkassan sem stóð meter þar frá, en í litla bænum gerði það hver einasta hræða sem á annað borð rak augun í það. Í London leið tæp klukkustund þar til einhver gætti að manninum, en í litla bænum (sem ég man ekki hvað heitir) leið ekki nema mínúta þar til fyrsti vegfarandi kom hjá og hann, sem og allir sem á eftir komu, stoppaði til að kanna hvort það væri í lagi með manninn.
Það segir sig sjálft að þegar fólk sem hefur alla tíð alist upp í slíkri mannmergð kemur hingað í strumpaþorpið þá munu einhver óþægindi hljótast af og það hafa þau þegar gert. Tíðni nauðgana hefur aukist og nú er hægt að kaupa krakk þó margir virðist vilja loka augunum fyrir því.
EN STÓRA SPURNINGIN ER: Hvernig má koma í veg fyrir neikvæðar félagslegar afleiðingar af stríðum straumi innflytjenda...-ef það er þá yfir höfuð hægt og getum við lært af öðrum þjóðum hvað þetta varðar? Ég lifi í voninni um að eitthvað sé hugsanlega hægt að gera.
Ein leið væri kannski að stoppa þessa ömurlegu gettóaframleiðslu sem hefur verið í gangi hér á stór-Reykjavíkursvæðinu í töluverðan tíma og ekkert lát virðist vera á? Hvernig í ósköpunum stendur á því að við erum til í að láta fégráðuga verktaka stjórna því hvernig samfélagið á eftir að þróast? Hefur enginn heyrt talað um orsök og afleiðingu? Stundum finnst mér fólk svo skammsýnt og vitlaust að mig langar að fara út á götu og góla upp í himininn.
Allt um þessa þróun í byggingarmálum má lesa í eftirfarandi viðtali sem ég tók við Pétur Ármannson arkitekt fyrir Fréttablaðið (síðasta vor að mig minnir), en í því segir hann m.a. þetta;
"Margir kannast við að hafa séð heilu blokkirnar og jafnvel blokkarhverfin sprengd og jöfnuð við jörðu í sjónvarpinu. Slíkt hefur oft átt sér stað erlendis, en þetta gerist þegar félagslegar aðstæður verða svo mannfjandsamlegar að menn komast að þeirri niðurstöðu að það sé einfaldast að rífa heilu hverfin, sem yfirleitt hafa fengið á sig "gettó"-stimpilinn."
(og sértu spennt þá er viðtalið hérna í fullri lengd:
Á ráðstefnu um byggðamál komu fram áhugaverðir punktar varðandi fjölbýlishús og þróun þeirra á höfuðborgarsvæðinu.
Fyrr í þessum mánuði fór fram málþing á Grand Hótel Reykjavík þar sem byggðamál og þróun þeirra voru rædd. Að málþinginu stóðu fjölmargir aðilar sem koma að hönnun og byggingu húseigna, meðal annars Skipulagsfræðingafélag Íslands, Arkitektafélag Íslands, Félag íslenskra landslagsarkitekta og umhverfisráðuneytið. Þetta er í annað sinn sem ráðstefna af þessu tagi er haldin, en árið 2005 var haldin ráðstefna um Vatnsmýrina á svipuðum forsendum.
Pétur Ármannsson arkitekt var meðal þeirra sem fluttu erindi á ráðstefnunni en erindið flutti hann fyrir hönd Arkitektafélags Íslands.
Í erindinu sem Pétur kallaði Blokkin " barn síns tíma? velti hann fram spurningum um fjölbýlishús í Reykjavík, þróun þeirra, kosti og galla.
"Ég skoðaði hugtakið "blokk" í sögulegu samhengi og hvernig þróun slíkra bygginga hefur verið á landinu. Í því samhengi geri ég greinarmun á blokk og fjölbýlishúsi og tala þannig um blokkina sem hús sem sker sig frá umhverfi sínu og fellur ekki inn í aðra byggð," segir Pétur.
"Fyrstu blokkarhverfin í borginni risu við Hringbraut og Birkimel í kringum stríðsárin og fyrir þann tíma var aldrei talað um blokkir heldur sambyggingar eða fjölbýlishús. Á tímabilinu 1975-1990 reis töluvert af lágreistum fjölbýlishúsum á landinu, en þau eru ekki skilgreind sem blokkir á sama hátt og þessi háu hús sem skera sig frá öðrum byggingum. Í Gallupkönnun sem var gerð fyrir nokkrum árum kom í ljós að slíkar gerðir fjölbýlishúsa njóta meiri vinsælda hjá fólki en háar blokkir. Lágreist fjölbýlishús eru talin manneskjulegra og vistlegra umhverfi og þau dæmi sem fengu einna hæstu einkunn voru hús af slíkri gerð. Þetta þótti töluvert áhugaverð niðurstaða og með hana að leiðarljósi skoðaði ég það sem er að gerast í þessum málum í dag," segir Pétur og bendir á að ef flett sé í gegnum fasteignaauglýsingar í dag komi í ljós að stórar kassalaga blokkir séu orðnar mjög áberandi í nýju hverfunum.
Ég velti því fyrir mér hvernig stæði á þessu þar sem þetta er hvorki í samræmi við þá þróun sem hefur verið hér á landi undanfarin ár né í öðrum löndum. Hingað til hefur verið stefnt að því að byggja fjölbýlishús sem verða hluti af samstæðu hverfi, en nú þarf ekki annað en að skoða nýjustu dæmin í Kópavogi og Hafnarfirði til að sjá að þetta stefnir í aðra átt. Persónulega finnst mér slík háhýsi ekki vera mjög aðlaðandi umhverfi og því spyr maður sig hvers vegna sé verið að byggja þessa tegund af húsum sem hafa marga galla, bæði umhverfislega, veðurfarslega og hvað varðar innra skipulag."
Á Norðurlöndum er algengt að fjölbýlishús hafi vistlega garða sem íbúar njóta sameiginlega góðs af. Í Kaupmannahöfn búa flestir í slíkum fjölbýlum og garðarnir eru oftar en ekki vettvangur fyrir skemmtanir og samverustundir nágranna, bæði barna og fullorðinna. Hér á landi er slík stemning sjaldgæf en ónotaðir garðar sem minna öllu heldur á vindasöm tún eru algengari sjón í kringum fjöl-býlishús.
"Eitt af því sem menn hafa gagnrýnt við þessar stakstæðu blokkir er að það er ekki hægt að ganga úr stigahúsinu út í garð. Skjólmyndun er einnig lítil, en besta skjólið myndast þegar húsin eru öll í svipaðri stærð. Sem dæmi um þetta má nefna Vesturbæinn í Reykjavík sem stendur á fremur vindasömum stað, en þar er samt sem áður skjólsælt þar sem verstu veðrin fara yfir þök húsanna. Um leið og eitt hús rís eina eða tvær hæðir yfir hin húsin, þá rótar það vindinum og verður þess valdandi að hann slær sér niður," segir Pétur og minnist í því samhengi á erindi sem Magnús Jónsson veðurfræðingur flutti á þinginu. "Þar sagði hann réttilega að vindurinn og rokið væru einn stærsti gallinn við íslenskt veðurfar. Meira að segja á sólríkum dögum getur hafgolan spillt blíðunni og því ætti það að vera mjög ofarlega á blaði að mynda skjól í byggðinni," segir Pétur og tekur sem dæmi fjölbýlishúsahverfi í neðra Breiðholti þar sem byggingarnar mynda boga, leiksvæði barna eru í skjóli sólarmegin við húsin og hægt er að ganga inn beint frá garðinum en ekki frá bílastæði eins og algengt er.
"Þegar maður skoðar allra nýjustu hverfin þá virðist þessi hugsun hafa vikið til hliðar og stóra spurningin er hvers vegna málin hafa þróast á þann veg. Á ráðstefnunni urðu menn sammála um að það þyrfti að gera úttektir á því hvernig ákveðin hverfi hafa reynst fólki og af hverju þessi mál hafa þróast á einn veg frekar en annan. Fólk var líka sammála um að fjölbýli væri búsetuform framtíðarinnar og því þyrfti að auka á gæði þess á öllum vígstöðvum, bæði hvað varðar hljóðvist, endingu og mótun umhverfisins. Fjölskyldustærð fer minnkandi og nú verður alltaf meira um einstaklinga sem búa einir. Fólk kýs að binda minna fé í fasteignir og nota tímann á annan hátt. Tvöföld búseta hefur einnig aukist. Fólk á hús úti á landi eða erlendis og kýs að eiga minna húsnæði í borginni og því hentar það mörgum að búa í fjölbýli þar sem rekstrarkostnaður við slíkt er töluvert minni. En þó að við kjósum að búa í minna húsnæði er samt sem áður gerð ákveðin krafa til þess að húsnæðið standist gæðakröfur. Fram til þessa hafa Íslendingar oft hugsað um íbúðir í fjölbýlishúsum sem stökkpall áður en flutt er í stærra húsnæði, en þetta þarf nú að endurskoða í takt við lífsstílsbreytingar landans."
Margir kannast við að hafa séð heilu blokkirnar og jafnvel blokkarhverfin sprengd og jöfnuð við jörðu í sjónvarpinu. Slíkt hefur oft átt sér stað erlendis, en þetta gerist þegar félagslegar aðstæður verða svo mannfjandsamlegar að menn komast að þeirri niðurstöðu að það sé einfaldast að rífa heilu hverfin, sem yfirleitt hafa fengið á sig "gettó"-stimpilinn.
"Það er náttúrlega hræðilegt að svona lagað gerist," segir Pétur. "Hér á Íslandi höfum við hingað til notið góðs af því að um árabil var tekjuskipting nokkuð jöfn og því lítið um svokölluð "gettó". Eina undantekningin var kannski Fellahverfið í Breiðholti, enda má segja að helstu vandamál af þessum toga hafi tengst því hverfi. Það er því ljóst að það er mikill vandi að skipuleggja svona hverfi og það þarf að taka félagslega samsetningu mjög alvarlega. Hanna hverfin með það í huga að ólíkir hópar geti búið saman í sátt og samlyndi. Í nýjustu hverfum höfuðborgarsvæðisins er aftur á móti gengið fulllangt í því að byggja háa kassalaga múra með svalagöngum, eða svipuð hús og verið er að jafna við jörðu víða erlendis. Þessar lausnir eru kannski ódýrar, en ég efast um að það sé tekið tillit til endingar húsanna eða hvernig fólkinu sem á eftir að búa á þessum stöðum muni líða," segir Pétur Ármannsson arkitekt að lokum.)
Ég ætla ekki að segja meira um þetta í bili... enda þarf ég að hugsa svolítið meira. Velta vöngum og sjá hvort eitthvað poppar ekki upp, en það er ljóst að því fyrr sem við kynnum okkur málið á objectívan máta, því fyrr gætum við náð að koma í veg fyrir hin ýmsu vandamál sem þegar hafa byrjað að skjóta upp kollinum.
Sjálf fer ég til Póllands í apríl. Það verður gaman enda ansi margt fallegt þar þó land og þjóð hafi mátt þola allskonar vibba í gegnum tíðina.
Og svo að lokum... bara svona af gefnu tilefni -íguðsbænum ekki vera einfrumungur og halda að ég sé kynþáttahatari... þá verð ég ægilega súr.
Ást og friður
MHG
|