sunnudagur, janúar 20, 2008

Kaffi Táraflóð

Vanalega hef ég ekkert að setja út á Kaffi Tár en í dag gerðist undarlegur atburður.

Við mamma og Edda komum þarna inn. Fundum okkur borð og þær fóru úr jökkunum meðan ég gekk til að panta. Ég beið í röð eftir að maðurinn sem var á undan mér kláraði að panta. Það tók svolítinn tíma að afgreiða hann af því posavélin var biluð. Svo fór hann, fékk kaffið sitt og settist. Það kemur að mér og ég bið um kakó, sviss mokka, te og krossant.
Afgreiðslustúlkan gefur mér upp verð og býður mér svo að fara með þetta út, af því það loki kl fimm. Ég lít á klukkuna og sé að hún er eina mínútu yfir. Það var vel rúmlega tíminn sem ég beið eftir að sá á undan mér fengi kortið sitt úr bilaða posanum. Ég varð mjög hissa og spurði hvort við mættum ekki bara klára drykkina okkar, það tæki svona korter. Þá svaraði hún því að það gætum við svosem, en að þær myndu stóla upp og byrja að ryksuga og ef við gerðum okkur það að góðu þá gætum við setið þarna. Ég horfði á hana og lagði til að þær myndu bara læsa dyrunum þegar þær sæu fram á að vilja ekki fá fleiri viðskiptavini inn.

Eðlilega varð ég síðan svo hissa og móðguð að ég klæddi Eddu í fötin við fórum og fundum annan stað.

Samkvæmt því sem mér hefur sýnst á góðum viðskiptaháttum þá fara þeir ekki svona fram.
Ef veitingastaður er að loka og það eru enn viðskiptavinir á staðnum, þá fá þeir ákveðinn tíma til að klára veitingarnar áður en það er farið í að ryksuga. Svona eins og í sundi þegar það er hætt að hleypa ofan í laugina rúmum hálftíma áður en gestir eru beðnir að fara. Á sumum stöðum leggja meira að segja veitingamenn það á sig að bíða bara þar til allir fara og þá er byrjað að stóla upp... en svona fíflagangur í vitlausum afgreiðslu-unglingum er ekki til fyrirmyndar fyrir staðinn.
Ég hvet hana Sonju mína B. Grant, sem er framkvæmdastjóri þarna, til að skoða þetta mál og hvort það sé ekki hugmynd að taka upp sund-aðferðina við lokun. Það er allavega ekki smart að bjóða upp á hina tvo valkostina; að fara út í kuldann með krossantið eða sitja undir ryksugun.

Svei!