sunnudagur, júní 10, 2007

Stuð milli stríða Aðlaðandi er konan ánægð

MHG vill ekki vera karl heldur feminin feministi
.
Ein merkilegasta bók sem ég hef lesið er án efa bókin Aðlaðandi er konan ánægð eftir leikkonuna Joan Bennett. Bókin heitir á frummálinu How to be attractive og kom fyrst út árið 1941, en fjórum árum síðar var hún þýdd og útgefin hérlendis.

Ég fann þennan merka grip á bókasafni fyrir mörgum árum og las af miklum áhuga, því sannarlega tek ég undir þessa yfirlýsingu Joan að vissulega hljóti "konan" að vera ánægð þegar aðrir að henni laðast.

Bókinni var ætlað að vera einskonar handbók fyrir mýkra kynið um hvernig á að líta vel út, koma fallega fram og vera á allan hátt sem dömulegust og mest aðlaðandi. Til þess ráðlagði Joan kynsystrum sínum meðal annars að bursta hárið daglega, hreinsa húðina kvölds og morgna, drekka vatn, borða smjör og rjóma ef þær vildu fitna og sleppa því ef þær vildu grennast. Allt saman mjög skynsamlegar athafnir sem liggja í sjálfu sér í augum uppi.

Það merkilega við þessa bók er þó að mínu mati ekki fegrunar- og aðlöðunarráð fröken Bennett, heldur formáli bókarinnar því í honum talar hún beint til kynsystra sinna og fer þar yfir breytta stöðu mála í seinni heimsstyrjöld. Nú séum við stelpurnar farnar að vinna úti en það þýði samt ekki að við þurfum að láta selja okkur aðra karlavitleysu. Auðvitað vilji konur halda áfram sínu pjatti þó þær séu útivinnandi. Að karllæg gildi séu ágæt, en vitanlega verði að halda áfram í þessi kvenlegu. Ekki breytast í karlkonur. Af einhverjum ástæðum virðast þó sumar kynsystur mínar hafa misskilið þetta. Halda að til að ná jafnrétti verði konur að verða eins og karlar. Gleyma því að kvennapjatt er mjög skemmtilegt þó að það flokkist ekki sem virðingarvert í hugum karla og pjattaðir karlar þyki púkó.

Gleyma því að aðlaðandi er feministinn ánægður. Gleyma því að til að hið svokallaða jafnrétti felst ekki í að verða eins og karl, heldur að fá að njóta virðingar fyrir það sem við erum – eins og við erum.