sunnudagur, mars 18, 2007

Stuð milli stríða

Ég lít upp til Leni Riefenstahl

Lengi hef ég undrast ótta fullorðinna við það að óstýrilát ungmenni séu vondar fyrirmyndir þeim sem yngri eru.

Fyrirmyndir eiga flestir nefnilega í foreldrum sínum, hvort sem þeim líkar það betur eða verr. Síðar, þegar persónuleikinn fer að skerpast, getur hver og einn valið sér utanaðkomandi fyrirmyndir eftir smag og behag. Sumir kjósa þannig meðvitað að nefna mömmu og pabba sem fyrirmyndirnar í sínu lífi, en aðrir finna þær líka í nánasta umhverfi og áhugamálum.

Þess vegna breytir það engu þó að fólk sem notar eiturlyf og hegðar sér illa fái athygli í fjölmiðlum. Þau ungmenni sem ætla sér að hegða sér illa gera það nefnilega ekki vegna þess að þau sáu það í sjónvarpi.

Til dæmis er það ósennilegt að fínpússuð Garðabæjarstelpa sem spilar á selló og hlustar á Celine Dion myndi allt í einu ákveða að taka Courtney Love til sér fyrirmyndar.

Síður sé ég það fyrir mér að fimleikahoppandi 15 ára drengur sem bónar bílinn fyrir pabba færi að taka sér einhvern dýragarðsdreng sem fyrirmynd.

Það læra börn sem þau búa við og ef foreldrar eru góðar fyrirmyndir þá mótast börnin út frá því og velja sér utanaðkomandi framhaldsfyrirmyndir í takt við það.

Mín framhaldsfyrirmynd í lífinu er kona sem hét Leni Riefenstahl og hennar lífshlaup var hreint magnað. Til dæmis lét Leni hvorki kyn né aldur stoppa sig frá því að sinna áhugamálum sínum og það þykir mér til fyrirmyndar.

Hún lærði að kafa sjötug en laug því að hún væri fimmtug til að fá að taka prófið. Hún lenti í þyrluslysi í Súdan, 98 ára, og þegar hún lá banaleguna 101 árs, þá kenndi hún þyrluslysinu um slappleikann.

Ástríða hennar fyrir lífinu og möguleikum þess virtist óþrjótandi og alltaf var hún samkvæm sjálfri sér þrátt fyrir mikið andstreymi á köflum.

Það skemmtilega er að nokkurn veginn svona er blessunin hún mamma mín einmitt líka.


p.s. myndin af konunni í bláa bjarmanum hér til hægri... er einmitt af henni Leni minni.