Nýju fötin íslendingsins
Blekkingar eru virkt afl í þessari tilveru okkar og ég held að ég viti fátt hræðilegra en þær. Það er eitthvað svo agalegt að hugsa til þess að maður sjálfur, eða aðrir, lifi í hreinni blekkingu um að eitthvað ástand sé öðruvísi en það er. Að maður kjósi að selja sér einhverjar hugmyndir til að komast í gegnum eitthvað ástand, eða viðhalda því sem maður kýs að trúa.
Ég held að það sem mér finnist verst við þetta, er að blekkingin er svoddan tímaþjófur og lygar eru það líka. Þær taka frá manni tíma sem maður getur annars notað í gagnlegri hluti.
Sannleikurinn er vanalega styðsta leiðin að mínu mati. Blekkingar eru hringavitleysa sem endar alltaf í hnút, eða sjokki sem er verra en sannleikasjokk.
Oft finnst mér eins og öll þjóðin sé blekkt. Að hún kjósi að trúa einhverju sem er ekki satt. Innst inni hrópar lítil rödd hver staðreynd málsins sé eins og maður í mannþröng sem æpir að dómsdagur sé í nánd, en enginn hlustar. Röddin er kæfð, sniðgenginn, útskýrð eða login í burtu og svo... þegar afleiðingar blekkingarinnar slá mann utan undir (upp komast svik um síðir), þá ergist maður innra með sér yfir því að hafa ekki hlustað á þessa rödd. Þá segir fólk "ég fann þetta á mér, ég vissi að þetta myndi fara svona".
Eitt dæmi um blekkingu á þjóðarvísu var þegar allir trúðu því að Gaui litli væri ekki feitur. Maðurinn var akfeitur ennþá, en samt var honum hampað sem einhverskonar megrunargúrú.
Jú, alltílæ. Hann var kannski í kjörþyngd í mánuð, en eftir þessa sjónvarpsmegrun fór hann fljótlega aftur að fitna. Samt viðhélt hann ímynd kjörþyndar megrunargúrúsins lengi, lengi, lengi.
Sumir eru sérfróðir í blekkingum. Stjórnmálamenn og sölumenn verða til dæmis að vera lúnknir við þetta því annars næðu þeir aldrei fram vilja sínum.
Mjög þroskað fólk er það sem skynjar þessa litlu, æpandi rödd í brjóstinu, hlustar á hana og fer eftir því sem hún segir. Því meira sem það fer eftir henni, og lærir að treysta henni, því betur gengur því í lífinu. Það er samt mannlegur breyskleiki að fara ekki eftir henni. Að breyta gegn betri vitund.
Ástæða þess að þessi hressa þjóð sem við tilheyrum er svona til í að láta blekkja sig, eða vinna með blekkingum, er kannski sú að við erum svo fámenn. Fámennið gerir það að verkum að margir eru háðir því að ýmsum ímyndum sé haldið á lofti. Að segja sannleikann, hráan og ópússaðan getur gert það að verkum að hagsmuna sé ekki gætt og því er kosið að kinka kolli og samþykkja einhverja þvælu um að Garðar Hólm sé magnaður söngvari... af því við viljum ekki vera svona lítil og ljót... af því það er svo gott að halda að maður sé eitthvað... að allt sé gott og blessað en ekki svart og stressað...
En því miður þá er það aldagamall sannleikur að til að breyta óæskilegu ástandi er fyrsta skrefið að viðurkenna hvernig sé í pottinn brotið. Það breytist ekkert meðan allir brosa og dást að berrassaða kallinum.
|