sunnudagur, mars 25, 2007

Stuð milli stríða -Um Dorian Gray og illgjarna ondúlata í vígahug

Þessi pistill var í Fréttablaðinu.. Sunnudaginn 25 mars.


Þau voru nokkur, skrímslin sem ég óttaðist í æsku.
Til dæmis þóttu mér múmíur almennt mjög ógeðslegar og þá sérstaklega þessi í Tinnabókinni um Sjö kraftmiklar kristalskúlur. Ég gat varla horft á kápuna, svo mikill var hryllingurinn.

Í bókinni um Dísu ljósálf voru froskamæðgin sem bjuggu í feni og froskamamman vildi fá Dísu sem tengdadóttur, þvert á vilja Dísu. Mér þóttu þessi mæðgin mjög ógeðsleg. Slímug, hokin og krípí fenjafyrirbæri.

Svo var það hann Köngull könguló sem átti heima á Tjörninni og gerði ekki annað en að hrella Mola flugustrák. Köngull fannst mér ömurlegur náungi og ég vorkenndi Mola heil ósköp að þurfa alltaf að vera að standa í þessu stappi við fíflið hann Köngul.

Ég man ekki hvað ég var gömul þegar myndin um geimfarann Barbarellu var sýnd í Ríkissjónvarpinu, en þar bættist í hryllingssafn sálar minnar.
Bæði voru þar tannhvassar dúkkur sem reyndu að rífa kyntáknið í sig og árásargjarnir páfagaukar sem vildu henni ekkert gott, mér til vansældar.


Stuttu síðar kom svo myndin um manninn sem minnkaði á skjáinn en þar lenti heimilisfaðir í því að vera smækkaður niður í Playmobil-stærð og eitt af því sem hann þurfti að díla við var að drepa risakönguló með saumnál. Hræðileg sena!

Versta skímslið birtist síðan á RÚV árið 1980, þegar kvikmyndin um Dorian Gray setti sálarlíf mitt á annan endann. Sérstaklega senan þegar hulunni var svipt af málverkinu þar sem hinn raunverulegi, krumpaði, siðblindi og gerspillti Dorian kom í ljós.



Í dag er svo komið að ég hræðist hvorki kóngulær, múmíur, tannhvassar dúkkur né árásargjarna páfagauka, en Dorianar þessa heims vekja enn hjá mér ótta. Enda kannski öllu raunhæfara fyrir litlar konur að reyna að forðast sjálfhverfinga sem svífast einskis en köngulær og illgjarna ondúlata í vígahug?