Framlag mitt til framtíðar
Best að fara að birta þessa pistla hérna... endurnýta, endurnýta. Þessi birtist fyrir viku í Fréttablaðinu:
Að vinna frá níu til fimm, hendast svo á leikskólann að ná í krílið, koma við í búð til að kaupa í matinn, elda kvöldmat og setja í þvottavél, gera fínt, brjóta saman þvott, vaska upp, leika við barnið, baða það og svæfa er töluvert krefjandi dagsverk.
Til að gera þetta vel þarf nokkurn metnað og góða skipulagshæfileika. Það gefst lítill tími til þess að vera einstaklingur. Maður er öllu heldur samstaklingur með hagsmuni tveggja aðila að leiðarljósi. Tveggja, af því við erum tvær í fjölskyldu, en ef við værum fleiri þá þyrftu hagsmunir þeirra líka að rúmast í skipulaginu.
Legði ég allan metnað minn í að öðlast stórkostlegan frama í starfi myndi barnið mitt þurfa að sitja á hakanum og það vil ég ekki láta gerast. Í æsku barns mótast fullorðinn einstaklingur og sem foreldri ber ég mesta ábyrgð á því að þetta heppnist vel. Með því að leggja metnað minn í móðurhlutverkið í dag á ég sem örlítil eining eftir að stuðla að því að íslenskt þjóðfélag verði farsælt í framtíðinni. Vissulega í míkrómynd, en margt smátt gerir eitt stórt ekki satt?
Mér þykir það því miður að konur sem leggja metnað sinn í það að vera „bara“ góðar mömmur, skuli ekki fá þá virðingu sem þær eiga almennt skilið.
Ég hef hitt margar fimmtugar konur með minnimáttarkennd yfir því að hafa aldrei lokið háskólaprófi. Ég heyri líka fjölmiðlakonu sem nýlega lét af því starfi til að sinna „bara“ börnunum sínum, margítrekað spurða að því hvort hún ætli samt ekki bráðum að fara að „gera eitthvað“. Hún svaraði að hana langaði ekki til að „gera eitthvað“ heldur vilji hún leggja metnað sinn í móðurhlutverkið og ég spyr:
Hvað í ósköpunum er eiginlega að því?
|