Epískt klebr
Dagurinn í dag var ekki jafn skemmtilegur og dagurinn í gær. Hálf klebraður. Alveg þolanlegur, en ekki neitt rosalega skemmtilegur. Vont veður og lítið prógramm.
Það sem gerði hann þó þolanlegan (og alla aðra daga) var hvað ég á ótrúlega skemmtilega og dásamlega dóttur. Hún kemur manni alltaf í gott skap. Litla ljósið. Svo fín og falleg og góð. Hver hefur t.d. heyrt um smábarn sem fer sjálft í rúmið, slekkur ljósið og vinkar manni bless? Hún er eina smábarnið sem ég þekki sem gerir svona.
Ég er að lesa bók sem heitir Flugdrekahlauparinn. Nokkuð góð bók bara. Margir eru að pissa í sig yfir henni, en hún minnir mig mikið á bækurnar hennar Marianne Fredrikson um Önnu Hönnu og Jóhönnu og Símon og Eikurnar... það þykja mér góðar bækur. Ætli svona epískar sögur höfði ekki bara til mín? Ég held það.
Svo las ég bók eftir Murakami um daginn. Allir eru líka að pissa á sig yfir Murakami í kringum mig. Bókin hét Sputik sweetheart. Mér fannst hún ekkert æðisleg. Hún lifir reyndar ágætlega í minningunni...brot og brot, en þessar langloku súrrealísku ljóðrænu súper gáfulegu og djúpu lýsingar á tilfinningalífi sögumannsins fundust mér ekki mjög skemmtilegar. Þetta var svona "eins og" fyllerí. Endalaust "eins og"... Af hverju ekki bara að segja það hreint út? Mér hefur verið sagt að ég verði að lesa fleiri bækur eftir Múrakami. Best ég láti á það reyna. Fyrst þarf ég samt að klára Flugdrekahlauparann og Hand to Mouth sem er eftir Paul Auster. Hann hefur mér alltaf þótt mjög skemmtilegur höfundur.
Um daginn las ég Birting. Hana hef ég nánast haft á heilanum síðan. Hvað var hann alltaf að eltast við þessa Kúnígúnd? Hún varð hvort sem er feit og ljót. Sem minnir mig á það sem leikkonan í The Libertine sagði, eitthvað á þessa leið:
"Ég get ekki reitt mig á hverfula ástina frá þér. Miklu frekar vil ég einbeita mér að því njóta þess að vera sú dásamlega vera sem ég er".
Það voru reyndar fleiri góðar setningar sagðar í þeirri mynd. Til dæmis þessi:
"Mrs. Barry, you must acquire the trick of ignoring those who do not like you. In my experience, those who do not like you fall into two categories: The stupid and the envious. The stupid will like you in five years time. The envious, never."
Já... hann var svolítið flottur. Þessi mynd átti góða spretti.
Og fyrst ég er farin að tala svona um bækur þá get ég ekki sleppt því að minnst á það að ég hef líka haft Njálu á heilanum síðan ég las hana í annað sinn í hittifyrra. Ég held að Njála sé frábærasta bók sem ég hef lesið. Enda mjög epísk. Ef Egill úr Silfri Egils myndi hringja í mig og spyrja mig álits á Njálu þá myndi ég ekki hika við að segja honum það. Ég hef mikið álit á Njálu. Skrifaði ritgerð um konurnar í Njálu og fékk heil 10 stig fyrir hana. Mér fannst einmitt svo gaman hvernig Njálukonur eru bæði góðar og grimmar. Eins og fólk er jú.
Því miður er það svo að í seinni tíma bókum hafa kvenmenn oftast orðið annaðhvort góðir, eða grimmir. Aldrei bæði. Sjáið bara hvert einasta Disney ævintýri sem hefur verið skrifað. Ætli það sé ekki þessi "hóru"/"mömmu" komplex sem tröllríður undirvitund karla og hefur gert um alda skeið (aumingja Disney)... æi...
ég ætla að fara að lesa og sofa... hætta þessu röfli.
|