þriðjudagur, júlí 12, 2005

Antony og út úr skápnum

Er undursamlegur snillingur. Fyndinn líka og sjarmerandi og skemmtilegur. Útlitslega gæti hann verið sonur Dr. Gunna og Bjarkar. Hann var eins og fjúsjón af þeim tveim. Tónleikarnir voru dásamlegir. Ég var alveg ofan í kallinum. Hann iðaði af snilld. Tónlist í hverri frumu. Salurinn mesmeræsd. Ást og ekkert annað.

Svo þegar ég var að fara hitti ég strák sem ég kannaðist við en mundi ekki hvaðan. Strákurinn ljómaði allur. Tók í hendina á mér og spurði hvort ég hefði verið að eignast barn og svona. Sagðist hafa séð mig með vagninn. Svo kynnti hann mig stoltur fyrir kærastanum sínum og ég spurði hvort hann væri ekki að djóka af því jafnvel þó ég hefði ekki komið honum alveg fyrir mig þá var hann voða gagnkynhneigður í minningunni.

Hann sagði nei, ekkert að djóka og þá (svona til að breiða yfir það að ég hefði sagt "ertu ekki að djóka") fór ég að hrósa því hvað hann leit fáránlega vel út. Enda gerði hann það. Fjallmyndarlegur og fullur af gústói og karlmannlegri útgeislun. Satt best að segja leit hann svo vel út að ég mundi ekki hver hann var.

Svo kvaddi ég og fór afsíðis til að reyna að rifja upp og þegar það opinberaðist hver hann var þá fékk ég sjokk. Þessi strákur hafði verið ritstjóri á blaði sem ég skrifaði stundum í. Tónlistarblað sem var aðallega fókuserað á stráka og hætti að koma út fyrir c.a. ári. (Hint. Það hafði verið skammað af femínistum fyrir kláminnihald og fleira.)

Strákurinn var á þessum tíma svona þybbið nörd sem var með svaka áhuga á tónlist og bíói. Svona Nexus nörd sem lifði á borgurum og kóki. Alltaf í gráum jakka með búttaðar kinnar og innilit á húðinni. Hangandi með öðrum svona útlranördum.

Svo bara DUDDURRRUUUUU!!!! Himnarnir opnast, englar blása í lúðra, hann út úr skápnum og sjæse, meira Extreme Makeover hef ég aldrei séð. Andlega og líkamlega er maðurinn umpólaður, undursamlegur og ákaflega ferskur. Svo ferskur að það geislar af honum.
-A bird now. And bird girls can fly!