miðvikudagur, febrúar 02, 2005

Draumur Golfarans; Herrameðferð

Í dag fór ég í tannspangaréttingu til tannsa í Faxafeni og er ég steig þar inn uppgötvaði ég mér til undrunar (og skjálfta) að ég er fræg á tannlæknastofunni Ortis. Stelpan í afgreiðslunni þurfti ekki að spyrja mig til nafns og tannlæknirinn spurði hvernig gengi með uppeldið. Gaman að þessu. Gaman að vera fræg hjá tannlækninum sínum.

Svo var eitthvað löng bið eftir því að komast í stólinn hjá tannsa og þá þrumaði fræga konan í gegnum Laugardalinn í átt að World Class Spa og keypti þar afmælisgjöf handa sambýlismanni mínum. Herrameðferð sem heitir því plebbalega nafni Draumur Golfarans, ásamt Austurlensku höfuðnuddi. Vonandi samt ekki eitthvað Kárahnjúkanudd. Í draumi golfarans er nuddað á honum bakið og herðarnar og svo eru tærnar snyrtar. Austurlenska höfuðnuddið skýrir sig sjálft, þó ég viti ekki alveg hvað þetta austurlenska á að gera. Kannski kemur asíubúi með vel smurða fingurgóma og gerir sig brúklegan við hann. Whatever... mér finnst þetta fyrirtaks afmælisgjöf. Hver þarf ekki á slökun að halda við hvert auka "þrjátíuogeitthvað" sem bætist við?

Fram að þrítugu lifir maður í einhverjum skrítnum heimi þar sem maður eldist aldrei, getur allt og lifir að eilífu. Svo verður maður þrítugur og finnst það mjög þægilegt af því aldurinn kemur manni undan allskonar afsökunum. Einhvernveginn verður óþarfi að "sanna" sig og maður fer meira að spá í pottablómum og svona. Svo þegar árin bætast við eitt af öðru þá allt í einu fer það að ljóstrast upp fyrir manni að lífið taki enda. Líkaminn endurnýjar sig ekki eins hratt. Bingóið segir góðann daginn. Maður "á" að vera "búinn" að hinu og þessu. Kominn "hingað og þangað" í lífinu á einhverja "staði" sem eru ekki staðir heldur áfangar í lífinu sem "flestir" eru komnir á þegar þeir eru svo og svo gamlir. Þá verður ekki eins gaman lengur að eiga afmæli. Þá hættir maður að spyrja aðra að aldri og hættir að básúna um eigin aldur. Þá býður maður bara mömmu sinni í mat á afmælinu af því hún ein veit hvað maður er gamall. Þetta verður allt svona undercover... og kremin í hillunni verða fleiri og maður byrjar samviskusamlega að strjúka af sér maskarann á hverju kvöldi.

Þessvegna ætti það að vera skylda að hjálpa fólki að lenda mjúklega yfir í nýjan aldur og því eldri því meira "pampering". Góðan mat og mjúkar strokur. Á sjötugsafmælinu ætti maður að fá mánaðarlanga nuddmeðferð og dansnámskeið á Hawai. Siglingu um Karabísku eyjarnar. Ókeypis þjón út afmælismánuðinn. Whatever... allavega ekki styttu, konfektkassa eða sokka...