sunnudagur, janúar 16, 2005

Laugavegurinn lagður niður

Ég sagðist einmitt ætla að segja eitthvað um mollin og hér kemur það....

Þessi ljótu moll hér í þessari litlu höfuðborg. Mollin í úthverfunum. Stóru skrímslin sem sjúga orku og peninga frá fólki og gerðu það að verkum að litli Laugavegurinn fékk alvarlega pest. Pest sem varð til þess að fólk flúði, setti skilti í gluggann sem á stóð TIL LEIGU og flutti starfsemina í mollin.

Laugavegurinn að verða eins og eitthvað skítapleis í Póllandi þar sem enginn kemur nema einstaka draugur af og til. Nema reyndar um helgar þegar draugaskipið er í landi og ofurölvi spassar reika um stræti og torg. Graffití og plakataleyfar frá partíum í hittifyrra. Brotnar rúður í tómum búðum. Örvæntingafullir verslunareigendur sem eigðu í von en þurfa að kyngja þeirri sorglegu staðreynd að þetta er bara ekki að ganga.
Engum dettur í hug að breyta Laugaveginum. Loka t.d fyrir umferð á neðri hlutanum eða eitthvað þannig af því þá myndin jú enginn koma... Vita kannski ekki að STRIKIÐ var einusinni opið fyrir umferð og stemningin varð ekki til fyrr en því varð breytt í göngugötu.

NEI, við Íslendingar viljum ekki göngugötur! Það er ógeðslegt að labba! Það er alltaf svo vont veður hérna og við viljum vera inni þar sem veðrið kemur ekki að manni. Svo viljum við keyra eins langt að dyrunum og við getum og það er meiri möguleiki á því í mollinu en miðbænum.
Ef við keyrum þá aukum við líka möguleikann á því að fitna meira. Enda kominn í fimmta sæti yfir feitustu þjóðir heims. Það er flott. Við líkjumst þá ameríkönum meira og meira, en það er einmitt stefnan. Og ekki endilega einhverjum intellektúal eðalkönum heldur feitum, kjagandi jogginggalla könum úr miðríkjunum sem rogast einmitt í mollinn en eru ekki að labba niður einhverjar göngugötur eins og siðaðir Evrópubúar. Hvernig eigum við líka að vera siðuð þegar við erum komin af fólki sem át hor og stýrur í torfkofum öld fram af öld og óttaðist yfirvaldið? Fólki sem vissi ekki hvað tíska, bygginga eða matarlist var? Ha...? Fólki sem var frelsað af bandarískum hermönnum sem fyrst gáfu okkur eitthvað inpút frá ytri heimi með nælonsokkum, súkkulaði og sjónvarpi.

Auðvitað erum við þeim trygg. Frá A-Ö. Annað væri dónaskapur og vanþakklæti. Þessvegna stefnum við á að byggja fleiri moll, fitna meira, versla meira, eiga stærri pikköppa, lengri gerfineglur, fleiri kóksortir, taka meira af svefnlyfjum og bara á allann hátt líkjast þessum frelsurum okkar eins mikið og við mögulega getum.

Hvernig væri að byggja bara yfir Laugaveginn? Eða loka honum, rífa húsin og setja upp eitt langt moll. Þá myndi nú lifna yfir þessu! Ha?