Um póstmódernisma
Ok, vonandi tókst þetta... ef þú hefur einhvern snefil af áhuga á þessu þá lestu þetta... annars ekki. Verkefnið var að fjalla um pómó og taka 101 Rvk með inn í myndina.
Ef póstmódernismi væri...
Vanalega eru aldrei punktar á eftir fyrirsögnum en í tilfelli ritgerðar um póstmódernisma þá ætti að vera í lagi að snúa aðeins upp á þá reglu vegna þess að póstmódernisminn er ekkert sérlega mikið fyrir reglur. Og þó? Reyndar hefði aldrei gengið að setja einn punkt því einn puntkur þýðir –hingað og ekki lengra, og þannig er það aldrei með póstmódernismann. Enginn algildur sannleikur. Þrír punktar gefa hinsvegar til kynna að það sé eitthvað meira að fara að gerast og það er einmitt nokkuð póstmódernískt. Þessvegna ákvað ég að hafa þrjá punkta á eftir þessari óvanalegu fyrirsögn.
Hallgrímur holdgerfingur
Það er erfitt að alhæfa um þessa stefnu sem kennd er við póstmódernisma eða útskýra hana með einni setningu. En ég ætla þó að gera mitt besta með að koma orðum að því hvernig hún kemur mér fyrir sjónir.
Ef póstmódernisminn væri einn af gömlu guðunum þá væri hann þessi lúmski skrítni Loki. Vatnsgreiddur í dag og í fuglsham á morgun. Oftar en ekki tvísaga, erfitt að henda reiður á hann, erfitt að vita hvar maður hefur hann. Sífellt á iði milli heima og kannski aldrei neitt sérlega djúpur, allavega ekki við fyrstu sýn. Eins og skuggi sem kastast á vegg og flöktir þar um stund en er svo horfinn um leið og þú ætlar þér að lesa við ljósið.
Ef póstmódernismi væri Íslendingur um fertugt þá væri holdgerfingur hans maður að nafni Hallgrímur Helgason. Sá fæðist árið 1959 og var unglingur þegar menningarbylting kennd við pönk hóf innreið sína í þjóðfélagið.
Hann stundaði myndlistarnám í Reykjavík og Þýskalandi en fluttist fljótlega upp úr því til New York borgar sem mætti einmitt kalla holdgerfing, eða kannski steypugerving, póstmódernismans... ef póstmódernisminn væri borg.
Þar varð hann endanlega fyrir þessum öflugu póstmódernísku áhrifum sem hann flutti svo með sér heim til Íslands og upp frá því birtust þau áhrif margefld í öllum hans verkum en þau eru jú, að hætti póstmódernista, af ýmsum toga og ansi fjölbreytt.
Sem sannur póstmódernisti lætur Hallgrímur sér ekki duga eitt hlutverk heldur er hann líkt og Loki Laufeyjarson, ófeiminn við að bregða sér í fuglsham eða brúðarlín eftir því sem við á hverju sinni. Hann er þjóðfélagsrýnir, sem gengur stundum svo langt og er svo opinskár með skoðanir sínar (sjá greinina Baugur og bláa höndin), að sjálfur forsætisráðherra sér ástæðu til að taka hann inn á teppi og reyna að skamma hann. Hann er líka myndlistamaður, rithöfundur, ljóðskáld, leikritahöfundur og eflaust margt, margt fleira sem við fáum kannski ekki öll að sjá.
Hinn níhílíski Hlynur
Hallgrímur hefur gefið út nokkrar skáldsögur á rithöfundaferli sínum en árið 1996 kom út hans vinsælasta og þekktasta til þessa, 101 Reykjavík.
101 Reykjavík fjallar um ungann mann, Hlyn Björn, sem býr enn heima hjá mömmu sinni í miðbæ Reykjavíkur. Líkt og skáldið Dagur Sigurðarsson, fyllist Hlynur óöryggi þegar hann fer út fyrir póstnúmerið og tilvera hans takmarkast við það leiksvið. Hlynur er mjög póstmódernískur í þeim skilningi að hann er hálfgerður níhílisti, eða fulltrúi tómhyggjunnar og um leið afsprengi þeirrar kynslóðar sem kennd hefur verið við bókstafinn X. (Alda Björk Valdimarsdóttir segir í grein sinni á bókmenntavefnum um póstmóderisma í verkum Hallgríms að Hallgrímur sé af mörgum talinn faðir þeirrar kynslóðar á Íslandi, þó það sé að sjálfssögðu álitamál).
Hlynur Björn sér ósköp lítinn tilgang í hlutunum og öll hans skemmtun er ekki umbun fyrir eitthvað sem hann hefur á sig lagt heldur öllu heldur flótti frá raunveruleika sem að hans mati hefur allt of lítið kjöt á beinunum þó að öðrum þætti kannski nóg um.
X-kynslóðin er ólík foverum sínum m.a. að því leyti að hún elst upp við mun meira áreiti frá fjölmiðlum og hefur þar af leiðandi aðgang að miklu fleiri upplýsingum en þær sem á undan fara, en auðfengnar upplýsingar geta að sama skapi verið yfirborðskenndar og yfirborðsmennskan er einmitt talin eitt af mörgum einkennum póstmódernismans.
Núllið í 101
Að mínu mati leikur enginn vafi á því að þessi auknu áhrif frá fjölmiðlum og aukið flæði gagnslausra upplýsinga hafa m.a. haft þau áhrif á mörg afkvæmi X-kynslóðarinnar, að þau fyllast svonefndum valkvíða og vita oft ekki alveg í hvorn fótinn þau eiga að stíga þegar kemur að því að hafa skoðanir eða stefnu í lífinu. Leiðin út úr valkvíðanum er að velja kaldhæðnina og afskiptaleysið í staðinn. Teyga hina póstmódernísku tilveru. Vera núllið í 101. Taka ekki aðra afstöðu en þá að taka helst ekki afstöðu. Ef einhver afstaða skyldi hinsvegar koma fram þá geturðu ekki verið alveg viss um hvort hún sé í gríni eða alvöru og svo er hún líklegast orðin allt önnur á morgun. Hlynur Björn er slíkur karakter. Hann leikur sér að því að skilgreina sjálfan sig og tilveru sína en það skortir þó alla dýpt. Þetta er alltsaman bara afþreying en ekki alvara og ef alvaran er einhver, þá er hún afþreying um leið.
Nú? Tími?
Nútími er skrítið hugtak. Sérstaklega þegar búið er að setja það í samhengi við bókmenntir og listir, en margir spekúlantar og lærifeður þess geira vilja flokka síðustu fimmtíu til hundrað ár til nútímans. Þó er núið ekki nema þetta agnarsmáa sekúndubrot sem er að líða sem augu þín renna yfir þessi orð. Nútíminn er afstætt fyrirbæri en “síðnútími” eða póstmódernismi, er enn afstæðari og það að er að mínu mati helsti kosturinn við þessa stefnu, andstætt þeim sem láta “stefnuleysi” stefnunnar pirra sig.
Innan póstmódernismans rúmast frelsi til alls. Þar er hægt að hafa eina skoðun í dag og aðra á morgun. Hlaupa úr einu hlutverki í það næsta. Leita og gramsa í öllum heimsins kenningum, sjóða þær saman eftir “smag og behag” og spenna svo regnhlíf póstmódernismans yfir afraksturinn. Eina krafan er sú að afraksturinn beri með sér fjölbreytni og skírskoti til þess sem er að gerast á okkar tímum, í nútíðinni, samtímanum. Stundinni sem er að líða en ekki fortíð sem er liðin.
Í síbreytileika sínum ber póstmódernisminn það með sér að vera lifandi stefna. Meira lifandi en flestar aðrar stefnur vegna þess að allt sem lifir tekur sífelldum breytingum og er sífellt á iði og hreyfingu, en það sem lifir ekki er staðnað og á þar af leiðandi heldur ekki eftir að breytast. Að lifa og breytast hefur augljóst forskot framyfir það að staðna og breytast ekki og þessvegna segi ég: Lifi byltingin og Guð blessi póstmódernismann!
|