Sjálfhverfa
Blogg er alltaf sjálfhverft og oft nokkuð nöldurgjarnt.
Merkilegt samt, að þráttfyrir að hafa komið sterk inn á s.l árum, þá virðist sjálfhverfa ekki vera mjög pc. Fólk talar um sjálfhverfu eins og eitthvað rosalega slæmt, en í raun þá eru flestar "nútíma" manneskjur mjög sjálfhverfar. Allir alltaf eitthvað að pæla í sér á mjög metnaðarfullann hátt. Annaðhvort útlitlslega, tilfinningalega, vinnulega, leglega, eða hvernig sem er.
Mér finnst allavega ekkert sérstaklega algengt að hitta fólk sem ekki er meira eða minna sjálfhverft á einhverju af þessum sviðum. Kannski helst að gamalmenni séu lítið sjálfhverf, enda búin að greiða úr þessu öllu og fatta poíntið.
Þar sem það er komið í tísku hjá mér að gúddera Hannes Hó þá ætla ég að vera ekki pc og gúddera sjálfhverfuna líka. Hún er nefninlega allt í lagi svo lengi sem hún keyrir ekki um þverbak og verður þannig að enginn athygli er eftir handa öðru fólki. Ég þekki stelpu sem er svo sjálfhverf að henni helst ekkert á vinum. Voða dugleg að kynnast nýju fólki en ekki góð í að halda í það. Ástæðan sú að hún talar bara um sjálfa sig og það sem hún er að gera og hvert hún stefnir og hvað hún sé mikið númer. Ekkert um menn og málefni. Bara sjálfa sig. Það er mjög þreytandi að hlusta á svona linnulaust og út í eitt. Sjálfhverfa hennar flæðir og sullast út um allt svo manni verður nóg um.
Svona sjálfhverfa er leiðinleg. En bloggsjálfhverfa er góð. Og nöldur og tuð í bloggi er líka fínt. Kannski að ég fari bara að einbeita mér að því að nota bloggið sem svona vettvang fyrir nöldur og tuð og sleppi því alveg að nöldra og tuða þar fyrir utan. Allt sem pirrar mig og fer í taugarnar á mér fer héðan í frá hingað á bloggið. Ég ætla líka að verða minna og minna persónuleg.
Þegar ég byrjaði á þessu bloggi þá grunaði mig ekki að fólk væri að lesa þetta, allavega ekki margir aðrir en vinir mínir og svona þetta fólk í innsta hring. Ég var að vinna sem næturvakt á elliheimili og hafði gaman af því að rausa ruglinu upp úr mér á nóttunni. Bloggaði t.d. einu sinni um kerlingu sem ég var með á vakt. Hún var svona eins og pittbull hundur. Það small í gólfinu þegar hún fór hraðskreið yfir það, eins og pittbull með illa snyrtar neglur sem þýtur yfir parket. Hún var hás og lítil og samarekin og með ótrúlega grófar og þurrar hendur. Hrikalega stjórnsöm og leiðinleg.
Ég bloggaði um vakt sem ég tók með þessari gribbu og grunaði ekki að nokkur maður á þessu elliheimili væri að lesa það sem ég var að skrifa, en viti menn! Einn daginn talar yfirhjúkkann persónulega við mig og biður mig að fara nú hægt í þetta. Fólk hafi verið að lesa bloggið mitt og allir föttuðu við hvern var átt. Ég roðnaði og blánaði og leið skelfilega, en hún hló og sagði mér að ég ætti kannski að einbeita mér meira að skriftum. Ég var náttúrlega ekkert búin að segja henni frá blaðamannsdjobbinu sem ég vann þarna oft sveitt á nóttunni... Hmmm.
Allavega, þetta atriði varð til þess að ég varð varari um mig í bloggísku og yfirleitt reyni ég að vera það. Hef stundum skynjað svona spéhræðslu frá sumu fólki hvað varðar blogg. Það svona kemur með eitthvað "Maður á ekkert að vera að bera sig á torg" dæmi, en vita ekki að það er nú alveg óþarfi.
Lesendur þessa bloggs hafa t.d. ekki hugmynd um að ég er með exem, flösu, bipolar heilkenni og asma og að kærastinn minn er á féló og með spíttvandamál og ég er að hugsa um að fara frá honum til að koma endanlega út úr skápnum... ha? Ég er nefninlega ekki nógu sjálfhverf til að blogga þannig. Þó að ég sé náttúrlega alveg sjálfhverf...
|