Hinn guðdómlegi afbrenglari
Þá er þessi guðdómlegi afbrenglari kominn í gagnið og myndin svo skýr að það er eins og maður sé að horfa á dvd mynd. Þvílík og önnur eins dásemd! Hingað til hef ég reyndar aldrei verið mikið fyrir sjónvarp, en nú mun það svo sannarlega breytast (það breyttist líka aðeins með innreið unnustans í líf mitt þar sem hann kann vel að meta kassann).
Reyndar er ég selektívur neytandi hvað varðar gláp. Fer ávallt á www.sjonvarp.is til að kynna mér hvað er í boði og ef það er eitthvað sem mér lýst á þá glápi ég, en ef ekki, þá gerir maður bara eitthvað annað. Nú er ég því miður samt búin að festa mig við nokkrar seríur, eins og t.d Six feet under (sem er alveg frábær þáttur) og þá er vont að missa úr. Aðrir þættir sem mér þóttu skemmtilegir eru svo að missa dampinn, eins og Spooks og CSI. Spooks er að breytast í einhverja sápuóperu og hættur að fjalla um hættur njósnara í London og CSI er orðið óþolandi fyrirsjáanlegt. Ég veit alltaf hver morðinginn er eða hvernig hlutina ber að. Maður nennir því ekki.
Þetta er ágætt. Gott að hafa svona ofan af fyrir sér þegar lífið gengur út á að bíða eftir komu nýja einstaklingsins í tilveru mína. Úff hvað ég hlakka til.
|