Það er skessa á elliheimilinu, mjög fyndin og krúttleg risastór kona sem hefur aldrei farið til útlanda. Á morgnanna segir hún GEMMÉR EGG og í hádeginu segir hún GEMMÉR MAT! Í morgun sagði hún við mig: Þú ert afskaplega lítil kona, en ég er stór. Ég sagði: Já, það er rétt hjá þér. Við erum eins og sitthvor tegundin í fjallinu.... Hún sagði Já og brosti.
Stundum grípur hún í hendina á mér og vill leiða mig. Þá erum við eins og Sigga og Skessan.
Á þessu elliheimili eru nokkrar manneskjur sem minna mig á Íslenska forngripi. Fólk sem er enn eitthvað svo íslenskt ofan í merg og bein. Fólk sem hefur aldrei farið til útlanda, horft á skjá einn og allt það. Fólk sem veit ekki hvað Sigurrós og Pizzur eru. Fólk sem lék sér með kindakjálka í æsku og ímyndaði sér að þeir væru beljur. Mér finnst hálf vænt um þetta. Reyndar lék ég mér líka með svona lífræn leikföng þegar ég var lítil og það gekk fínt. Ég gaf líka hænum og flæktist um með beljuhóp, saug merg úr beinum og tók slátur og steikti flatkökur á hellu. Þetta gerðu margir sem eru fæddir sama ár og ég og rétt á eftir, en fólk sem er fætt fimm árum á eftir mér virðist hafa fengið allt öðruvísi uppdrátt í æsku. Það er eins og það hafi alveg dottið uppfyrir að senda fólk í sveit, svo komu sjónvarpsstöðvarnar og annað mataræði og svona og það er merkilegt hvað það er mikill munur á þessu og því sem var í gangi þegar ég var krakki. Systkyni mín hafa t.d. ekki verið send í sveit og þau eru fjögur stykki. Anna systir var reyndar alltaf í laxveiði á sumrin, en litlu rassgötin hafa ekki upplifað neitt af þessu... já já, svona breytist allt og það er bara hið besta mál, en furðulegt samt að átta sig á því að ég og 96 ára kona eigum svipaðari minningar úr æsku en ég og einhver sem er 10 árum yngri en ég.
þriðjudagur, desember 09, 2003
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|