föstudagur, nóvember 28, 2003

Ég er að fara í próf í ensku á eftir. Ég er nefninlega ´ómenntuð´ eins og það er kallað á alþýðumáli.

Þegar ég var að alast upp þá var alltaf verið að tala um hvað ég hefði góða námshæfileika en væri svo mikill prakkari og þessvegna nýttust námshæfileikarnir ekki. Málið var að ég nennti ekki að gera það sem mér fannst ekki skemmtilegt og var með heilmikið attitjúd (fannst fólk yfirleitt heimskt og gat ekki tekið við skipunum frá því). Fékk þessvegna alltaf háar einkunir í ´guess what´ sögu, ísl, ensk, bókmenntum og svona en lélegar í stærðfræði, náttúrufræði og þessum svokölluðu raungreinum. Þetta var af því maður þurfti að ´læra heima´fyrir raungreinarnar en hitt kom bara af sjálfu sér. Maður varð kannski að lesa eina eða tvær bækur og það var ekki mikið mál fyrir mér þar sem ég las á obsessívan hátt lágmark fimm skáldsögur á viku. (Var mjög fastur kúnni á bókasafni Kópavogs.)
Fyrir raungreinarnar þurfti maður einbeitingu og einhvern stuðning og hann var því miður ekki að fá í mínu umhverfi þannig að þetta féll allt um sjálft sig. Náði nú samt samræmduprófunum úr Hagaskóla af því það árið var ákveðið að hafa landspróf og meðaleinkunin notuð sem útkoma á prófinu. Ég mætti í stærðfræðiprófið með walkman. Hlustaði á Grieg og skrifaði ljóð á blaðið. Fékk 0,5. á prófinu en náði hinu dótinu vel (var einmitt að hringja og biðja um einkunirnar að gamni).
Svo þegar kom að því að ég ætti að fara í menntaskóla þá urðu endalaus verkföll og ég var búin að eignast kærasta í útlöndum sem mér fannst meira spennandi en að rembast við að hanga í menntaskóla. Magga keypti flugmiða og flutti til London.
London árin urðu tvö og þar á eftir tóku við töluvert mörg ár af jöfnu glensi. Þar sem ég var svo ung þá fannst mér eins og ekkert væri alvarlegt. Ég var ódauðleg, eins og allir sem eru rétt rúmlega tvítugir, og það eina sem máli skipti var dagurinn í dag eða í mesta lagi tilveran fram að næstu helgi. Síðan var ég líka svo heppin. Ég var yfirleitt að gera það sem mér þótti skemmtilegt. Ferðaðist um Evrópu, vann sem DJ, lék í og gerði bíómyndir, gerði útvarpsþætti og hafði það bara mjög fínt. Gat ekki séð til hvers maður ætti eiginlega að fara í skóla? Svo vissi ég líka alltaf innst inni að ég ætti eftir að verða rithöfundur og þeirra besti skóli var víst þessi sem er kallaður skóli lífsins. Safna reynslu. Vera experimental í lífinu. Forvitinn.

Á þessum árum fór ég reyndar á nokkur námskeið í hinu og þessu, en það var bara svona til að hafa eitthvað að gera á daginn þegar maður var ekki að djamma, svo ég tek einhvernveginn ekki neitt rosalegt mark á því (þótt aðrir geri það kannski). Það mesta sem ég hafði upp úr þessum mýmörgu námskeiðum var það að nú kann ég grafíska hönnun og er skrambi góð í photoshop (enda fór það vel með jónureykingum og sólarhringsviðsnúningum).

Lukkan hefur haldið áfram að elta mig á röndum og ég er enn, þrátt fyrir ´menntunarleysið´ að gera það sem mér finnst gaman. Skrifa í blöð. Reyndar vinn ég líka á elliheimilinu í 75% vinnu, en það er aðallega til að fá alltaf eitthvað fast (ritstjórar eiga það til að geyma greinar og borga ekki fyrr en eftir birtingu) og til þess að vakna á morgnanna.

En aldurinn færist yfir og alvaran með og nú er svo komið að ég ætla að skella mér í skóla þrátt fyrir að ég verði að pína ofan í mig tvo stærðfræði áfanga. Er reyndar svo heppin að hún Heiðrún mín er master í verkfræði og þvílíkt góð að reikna og að sama skapi að kenna þannig að ég hef ekki stórar áhyggjur af því. Er líka heppin af því ég fékk 2 undirbúnings ár mínusuð frá sökum lífs og starfsreynslu og fer beint inn í ljósmyndunina sem er lokaáfanginn. Er enn og aftur heppin af því það voru fleiri tugir sem sóttu um en átta komust inn og ég er ein af þeim. Stúdentinn verður tekinn on the side. Eftir þetta verð ég orðin blaðamaður og ljósmyndari sem er hið besta mál... og hver veit hvað gerist næst? Kannski á maður eftir að útskrifast með doktorinn um fimmtugt? Ain´t no stoppin us now!