mánudagur, nóvember 24, 2003

Einu sinni bjó ég á Suðureyri við Súgandafjörð. Þar gerðist ekki eins mikið og í stórborginni svona á aksjón mælikvarða, ekki nema maður nennti að hafa fyrir því sjálfur. Eitt sinn gerðist þó alveg stórmerkilegur viðburður. Það kom strippari í bæinn. Strippari þessi, eða fatafella eins og þær voru kallaðar í denn, hét því exótíska nafni Leoncie og hafði þegar gert víðreist um landsbyggðina. Félagsheimilið á Suðureyri var kyrfilega undirbúið fyrir þessa heimsókn. Til að mynda voru svartir plastpokar límdir fyrir gluggana svo að maður átti ekkert að geta séð inn en við reyndum þó að gera okkar besta. Stöfluðum mjólkurkössum upp fyrir framan gluggann og príluðum upp. Pírðum augun í gegnum rifu á milli poka og ramma. Ég sá glitta í Leoncie undirbúa sjóvið. Hún gekk um sviðið í mjög framandi búning og var öll hin dónalegasta í mínum augum. Ég komst ekki svo langt að hafa séð það sem fram fór um kvöldið en þetta var nóg fyrir mig.
Síðan mín saklausu augu pírðu í gegnum rifuna hefur þessi kona öðlast mikla frægð hér á landi. Fatafellumarkaðurinn er náttúrlega löngu mettur þannig að hún fær útrás fyrir sköpunarþörf sína með tónsmíðum. Aldurinn hefur líka færst yfir hana svo það er ekki endalaust hægt að moða úr kroppinum sem eitt sinn var og hét. Neyðin kennir naktri konu að spinna og spila á synta.
Mér finnst hún ekki marktæk sem sinn eigin málsvari og hef því ekki mikið fylgst með hennar erfiðleikum sem nýbúa á Íslenskri jörð. Í staðinn orna ég mér við minningar um forboðna ávexti sem þessi rugludallur fæddi mér þar sem hún skakklappaðist um félagsheimilið í Súgandafirði.