mánudagur, júní 09, 2003

Bærinn var fullur af dásamlegum Færeyingum um helgina. Mér fannst þeir svo flottir að mig langaði til Færeyja í fyrsta sinn á ævinni. T.d. var par á vappi. Hún var með fjólublátt hár og í ótrúlega stuttu pilsi sem var með klaufar sitt hvoru megin. Undir því var hún í húðlitum sokkabuxum og svo stígvélum sem náðu upp að hnjám. Lærin á henni voru rosalega sver sem var fínt undir þessu oggulitla pilsi og kom út eins og eitthvað á teikningu eftir Robert Crum. Að ofan var hún í gulri angóru peysu. Kærastinn hennar var svona renglulegur og fölur en mjög kátur. Hann minnti mig á Röd, vin Pelle Eroberer úr samnefndri mynd. Svona henglu strákur. Hann var í mosagrænum buxum og mosagrænni skyrtu sem var samt með gulum líníngum svo hann tónaði vel við kærustuna. Svo horfði hann svo innilega á hana. Fannst hún greinilega meiriháttar sæt. Og hún svona trítlaði um bæinn og fannst greinilega bara alveg þokkalegt að vera til.