Nú er þetta fallega lag með Nirvana á Popptíví. Ef Popptíví fólkið vissi bara hvað Popptíví er stór hluti af lífi næturvarða þá myndi það kannski breyta prógramminu oftar.
Það gerðist ekki rass í dag.
Ekki neitt. Ég bara svaf eins og barn mjög, mjög lengi. Dreymdi samt margt skemmtilegt t.d. línu úr lagi með Rut Reginalds.
...því er margt svo skrítið
sem ég ekki skil
en það gerir ósköp lítið
því mér finnst gaman að vera til
úr laginu Furðuverk
Einu sinni dreymdi mig sanna ást. Mig dreymdi að það væri rauðhærður maður sem elskaði mig alveg í botn. Þegar við vorum búin að vera saman í tvo mánuði, og ég alveg rosalega hamingjusöm, þá komst ég að því að hann hafði látið framkvæma aðgerð á heilanum á mér án þess að ég vissi af því. Hann hafði látið fjarlægja analýseringarstöðina. Ég varð eiginlega frekar móðguð að hann skyldi hafa gert þetta því nú var ég ekki lengur klár, en þá spurði hann mig hvort að ég væri ekki hamingjusöm og ég var það náttúrlega. Niðurstaðan var sú að það er betra að vera vitlaus og glaður en klár og óglaður.
Uppúr þessum draumi fór ég að taka miklu ástfóstri við apa.
Ég las um apa sem var að hræða líftóruna úr fólki í Delí á Indlandi. Hann var með klær og græn augu. Fólk var að sofa uppi á húsþökum í hópum af ótta við þennan apa. Sumir urðu svo stressaðir að þeir hoppuðu framaf. Svo var einhver sjónarvottur sem ráfaði inn á löggustöð og gat gefið lýsingu á skrýmslinu. Hann var teiknaður upp og teikningin kom út eins og pirrað Teletubbie með Freddie Krueger hanska og apa eyru.. Að lokum kom í ljós að það var enginn api. Þetta var bara einhver svona massa histería sem greyp um sig og magnaðist upp og allir voru farnir að trúa á apann. Eitthvað eins og Íslendingar í torfkofum með Móra fóbíur.
Svo var annar api á Sri Lanka. Hann var að gera útaf við bæjarbúa með greddu. Hljóp á ketti og hunda og ungar stelpur og reyndi að ríða þeim. Það vissi enginn hvað átti að gera við hann af því það mátti ekki drepa hann, en litlu stelpurnar voru farnar að bera á sér lurka til að rota hann með og það gekk fínt. Fólk reyndi mikið að komast að því hvað það var sem rak apann áfram í þessari óstjórnlegu girnd. Svo uppljóstraðist málið. Apinn var í sykurvímu. Hann hafði legið í ruslapokum á bak við eitthvað bakarí og troðið sig út af sykri. Þetta varð til þess að hann missti svona svakalega stjórn á sér og reyndi að hafa mök við allt sem fyrirvarð... eða nánast. Pokonum var lokað og apinn fór aftur til hinna apanna að hangsa.
Stundum sé ég fólk fyrir mér sem apa með hárgreiðslur. Api með greiðslu að tala í síma. Api í úlpu. Dapur api að horfa út um glugga í strætó.
Desmond Morris skrifaði bók um þetta. The Naked Ape. Hann er atferlisfræðingur sem var búin að skoða atferli dýra í mörg ár. Fór svo að skoða menn með sömu augum. Líkamstjáningu, látbragð o.s.frv. Komst að því að við erum óttalega fyrirsjáanleg. Mér finnst það reyndar líka. Veit t.d. að ef ég er svöng þá breytist ég í eitthvað bitch sem slakar ekki á fyrr en ég er búin að borða. Maður heldur að maður sé svo klár en í raun þá er manni bara stjórnað hægri vinstri af hinu og þessu.
Stundum finnst mér það eina sem aðgreinir okkur frá öðrum spendýrum vera það að við höfum náð að krota niður tungumálið og koma þannig upplýsingum á milli kynslóða. Helvíti gott múv, en virðist samt ekki beint breyta miklu. Er ekki alltaf allt að endurtaka sig? Alltaf sömu erkitýpísku aðstæðurnar að endurtaka sig. Sömu erkitýpurnar að fæðast, komast til valda, eða ekki, hrökkva uppaf... attur og attur... Kardimommubærinn a go go... Samt endalaust heillandi og gaman. Hvaða aðrir apar fara í Séð og heyrt og BDSM spilið?
There are one hundred and ninety-three living species of monkeys and apes. One hundred and ninety-two of them are covered with hair. The exception is a naked ape self-named Homo sapiens
This unusual and highly successful species spends a great deal of time examining it's higher motives and an equal amount of time ignoring it's fundamental ones
The Naked Ape, Introduction, 1967
Ef ég ætti eina ósk, þá myndi ég óska þess að heimurinn yrði 100% mállaus í heila viku. Hvað haldiði að myndi gerast?
****
Já, ég hamraði inn nýtt ljóð
Ást og fiður
miðvikudagur, nóvember 20, 2002
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
|