miðvikudagur, febrúar 18, 2009

Stjórnmála-ó-eðli

Ég var að velta því fyrir mér hvort fíflagangurinn í þingmönnum (og fleiri ráðamönnum) þessa dagana þýddi kannski að vandamálin sem blasa hér við séu kannski ekki eins alvarleg og okkur hefur verið gert að trúa?
Þ.e. að þau viti eitthvað annað en almenningur og leyfi sér því að velta sér upp úr tittlingaskít og kasta sandi í hvort annað í stað þess að taka á þessu öllu af einurð og festu.

Þetta fólk er nefninlega farið að minna mig á persónur í Jerry Springer þætti. Mannskapurinn á útopnu í skítkasti og valdabaráttu meðan maður myndi halda að vinnufriður og samstaða væri það sem mestu skipti? Að staðan væri svo alvarleg að það teldist nauðsynlegt að halda hausnum uppi á yfirborðinu og ræða aðeins málefni, en ekki menn.

Semsagt tvennt í stöðunni:

A)staðan er ekki eins alvarleg og af er látið og þessvegna leyfa þau sér að láta eins og hálfvitar.

B) Þau eru meira eða minna hálfvitar?

Því er nefinlega stundum þannig farið að þegar mikil hætta steðjar að... þá er eitthvað í mannskepnunni sem lætur alla yfirborðskennda kergju og fordóma til hliðar. Segjum bara þegar svertingi, Gunnar í krossinum og hommi koma óvart saman að slysstað þar sem rúta hefur oltið á hlið.

Þeir hjálpast að við björgunina og gleyma þessu með að "mér er illa við homma" eða "mér er illa við jesúfasista". Reyna bara að bjarga því sem bjargað verður. Það er að segja ef þeir eru ekki hálfvitar.

Þetta gerist nánast undantekningarlaust. Mannlegt eðli virðist yfirleitt virka svona.

En kannski er eitthvað annað í gangi í stjórnmála-eðlinu? Eða á maður að segja stjórnmála-ó-eðlinu?

(Spurning um að fá Dr. Phil í næsta þátt af Silfri Egils? Group therapy. Þroski 101)