sunnudagur, febrúar 08, 2009

Samskipti

Núna er ég að slá inn viðtal sem ég tók við konu (er í andartaks pásu meðan ég viðra þessa pælingu).

Í viðtalinu spyr ég hana allskonar spurninga og falast eftir upplýsingum og það er svolítið merkilegt að heyra það á bandinu að hún skilur mig ekki alltaf, en svarar samt.

Ég fór að velta því fyrir mér hversu mikið af samskiptum eru nákvæmlega svona. Fólk að "tala" saman en skilur samt ekki hvort annað.

A skilur kannski eitthvað, en hugsanlega bara 40% í fullkomnu samræmi við það sem B er að meina. Hin 60% eru soðningstúlkun sem afvegaleiðir bæði A og B.

Stundum finnst mér tungumálið hrikalega takmarkað apparat. Það getur verið svo auðvelt að misskilja það.
Þetta var sérlega áþreifanlegt þegar ég vann við að búa til auglýsingar. Maður þurfti kannski að selja viðskiptavini hugmynd og til að vera nánast fullviss um að viðkomandi skildi það sem ég var að meina þurfti að nýta öll skilningarvit manneskjunnar. Tónlist, myndir, leikræn tilþrif og svo ORÐ. Það lá stundum við að lyktarspjöld hefðu getað hjálpað til.

Í mínu einkalífi tel ég mig farsæla að hafa í kringum mig góða og fallega vini sem skilja í 75% tilvika það sem er ég að segja eins og ég meina það án þess að ég þurfi að nota mikið af skýringarmyndum eða lyktarspjöldum. Ég held að það sé guðsgjöf.

Svo finnst mér gott að geta talað við fólk sem gerir ekki ráð fyrir undirliggjandi meiningum. Þetta er svipað í samskiptum og þegar verið er að leysa vandamál eða þrautir. Einfaldasta lausnin blasir ekki alltaf við -af því hún er "of einföld". Fólk gerir ráð fyrir meiri flækjum. Reiknar með sub-rosa þó það sé kannski bara túnfífill sem um er að ræða.
Stundum hef ég reynt að tjá mig á ofur einfaldan hátt (til að koma í veg fyrir misskilning) en samt er gert ráð fyrir því að ég sé ekki að meina það eins og ég segi það af því það er "of einfalt"..."of hreinskilið"..."of blátt áfram". Til hvaða bragðs er þá hægt að taka?

Þetta er skrítið.

Til öryggis ætti maður kannski að ganga með teikniblokk á sér og svona BIC penna sem skiptir um liti? Lyktarspjald og iPod.... til að vera viss um að fólk fatti þetta allt saman alveg eins og það á að skiljast.

Skrítið að það séu ekki tafla og tússpennar á Alþingi. Myndi það ekki spara smá vesen? Jafnvel hattar, trúðanef og plötuspilari. Kannski að við myndum verða fyrri til að ná árangri ef hægt væri að virkja fleiri skilningarvit þegar stórum málum er komið á framfæri?
...

Best að halda áfram að slá inn þetta viðtal...