Kúkurinn í viftuna
Í dag las ég um viðbjóðslegan barnaníðing og fjöldamorðingja sem var uppi í Frakklandi á 13.öld.
Frásögnin af þessum manni toppaði allt ógeð sem ég hef nokkurntíma heyrt um og við lesturinn varð mér hreinlega líkamlega illt. Illt í beinunum og illt í blóðinu. Mér verður alltaf illt þegar ég heyri eða les um fólk sem er vont við börn.
Samt er svo skrítið að við þetta hugsaði ég að heimurinn væri þó skömminni skárri í dag heldur en undanfarnar aldir. Hann er í raun alltaf að skána og verða betri.
Skrímsli í mannslíkömum komast ekki upp með sama viðbjóðinn í dag og yfir bara 50...hvað þá 100 árum síðan. Jarðarbúar sætta sig við minna krapp en áður og upplýsingaflæðið hefur gert það að verkum að það er flóknara mál að vera vondi kallinn -hvað þá skrímsli.
Í gær skoðaði ég ljótar myndir af átökunum við Gaza svæðið og furðaði mig enn og aftur á þessu rugli sem er í gangi þarna. Svo las ég fréttir af Rússum sem eru að stífla á gasleiðslur gegnum Úkraínu til Evrópu og aðra frétt þar sem einhver leiðtogi al kaíeda lýsti því yfir að árásin á Gaza væri gjöf frá Obama. Og í kjölfarið af þessu hugsaði ég...Ok... kannski að kúkurinn sé að fara í viftuna eftir allt saman? Þriðja heimstyrjöldin og svona. Og svo hugsaði ég...Hmmm... þriðja? Hafa menn (testesterón) ekki verið að slást og drepa hvorn annan og konur og börn þessarar jarðar frá því fyrsti loðin-nárinn lyfti upp steini og bjó til hamar?
Við segjum bara "þriðja" af því sjóndeildarhringur kynslóða okkar nær ekki mikið lengra. EN EF þetta er "þriðja" skv Maya indíánum, Nostradamusi og Völuspá þá er það eflaust ágætt af því það sem kemur á eftir er miklu betra en allt sem hefur gengið hér á áður. Þ.e.a.s. ef spádómarnir rætast. Samkvæmt spádómum þá endar þetta nefninlega allt mjög vel.
Reyndar á kúkurinn víst að vera svo stór að viftan eyðileggst en í staðinn kemur grænt gras og gulltöflur á túni og allir verða rosalega harmónískir eftir heimstyrjöldina. Græna byltingin og svona. Allir vinir, allir í jóga, allir eins og Ghandi. Spurningin er bara hverjir koma til með að lifa kúkinn af?
Sjálf er ég með svipaðan karakter og Mía litla í múmínálfunum. Hún elskar stormviðri og eldingar (og jarðskjálfta og eldgos) og því finnst mér þetta einkennilega spennandi. Á sama tíma er upplifunin svipuð því og að aka bíl í myrkri. Maður sér aldrei lengra en ljósin ná. Þannig er framtíðin. Hún opinberast manni á hverri sekúndu. Hverju sekúndubroti. Og svo allt í einu er það búið og þá er maður dáinn.
Skrítið...
|