Afi á Facebook
Ég á afa sem er áttræður. Þegar ég var yngri þótti mér hann sérlega gallaður náungi en eftir því sem ég hef orðið eldri (og hann) hefur mér tekist betur að meta þennan náunga. Hann er eflaust eins og vín. Verður betri með aldrinum.
Nú er hann kominn á Facebook. Vissi ekki hvernig átti að skrá sig þarna og hringdi því í mig daglega í viku og bað mig að koma til sín svo við gætum sett þetta upp. Af þessu varð í kvöld en þá ók ég í Kópavoginn, þar sem hann sprangar um í einbýlishúsinu sem hann byggði sér sjálfur og tók mér sæti með honum fyrir framan tölvuskjáinn.
Við hjálpuðumst að við að skrá inn áhugamál hans: Kvikmyndir. Ljóð og vísur. Gönguferðir. Gin og tónik. Kanaríeyjar.
Og eftirlætis myndirnar: Casablanca, About Schmidt og Galdrakarlinn í Oz. Hann fer samt í bíó sirka tvisvar í viku.
Svo tók hann sig til við að skrifa status og krota á veggina hjá ættingjum, gömlum leigjendum og öðrum nýjum Facebook vinum.
Í "Um mig" klausuna skrifaði sá gamli: Meðan ég er ekki dauður þá verð ég að vera á Facebook!
Og eftirlætis tilvitnunin: Aldrei gera í dag það sem þú gast gert í gær.
Sem rammar einmitt inn þetta sem hann sagði í fyrsta "Komdu mér á Facebook Hugrún" samtalinu...
"Meðan ég er enn hérna Hugrún, meðan ég er ekki dauður, þá verð ég að taka þátt í því sem er að gerast".
Life fast, die old.
Tek ofan fyrir þér grandpa (minn virtual hatt).
|