sunnudagur, nóvember 23, 2008

Að vera Íslendingur

Einu sinni átti ég mér íslenska sjálfsmynd.

Hún byggðist á einhverskonar nostalgíu sem ég sótti til æskunnar: Að hlusta á veðurfréttir á Rás 1, spila eða hlusta á útvarpsleikrit á fimmtudagskvöldum, lesa bækur eftir Laxnes og Þórberg, horfa á langafa minn borða hræring og sjá eyrun á honum færast fram og aftur, fara út fyrir bæinn á sunnudögum og fá ís í Eden eða fara með teppi út í móa og drekka kaffi.

Þessi mynd hafði sterkar rætur sem sukku lengi vel langt ofan í mína andlegu/íslensku jörð.

Sautján ára fór ég fyrst til lengri tíma af landinu. Þá bjó ég í Bretlandi. Bæði í Wales og London. Kom heim eftir u.þ.b tvö ár, var heima í fimm og fór svo aftur út til tæpra fimm ára. Var í burtu á árabilinu 1992-1997.
Í hvert sinn sem ég flaug heim á þessu tímabili hafði eitthvað breyst í umhverfinu og þjóðfélaginu. Man sérstaklega eftir því þegar matvöruverslanir voru allt í einu opnar á sunnudögum. Mér þótti það skrítið og hálfgerður óþarfi. Ég sá gömlu þjóðina mína týnast í þessum breytingum.

Já. Undanfarin ellefu ár hafa átt sér stað breytingar sem hafa gert það að verkum að sjálfsmyndin sem ég hafði af mér í samhengi við þjóðerni mitt er horfin. Hún er ekkert annað en langsótt minning sem á sér ekki mikla stoð í veruleikanum og því sem fólk gerir í kringum mig.
Silvía Nótt tók við keflinu af Þórbergi og þjóðarsálin varð að einhverskonar heimtufreku stelpukrakkadýri sem skrifaði allt á pabba sinn (og pabbi reddaði alltaf öllu, á bak við tjöldin.) Ég hef aldrei kunnað vel við svona stelpur.

Og þetta gengur lengra. Nú er svo komið að allt sem við höfum hingað til tengt okkur við er að molna niður.

Krónan er dáinn og það að taka slátur er ekki lengur hversdagslegur viðburður að hausti heldur kjánalegt sparnaðar-ritúal sem á um leið að minna okkur á hver við erum/vorum...meðan allt er að fara til fjandans.

Að vera Íslendingur í dag er að vera af lítilli, spilltri eyju í norðurhafi.

Þjóðarsálin fór langt frammúr sér í lífsgæðakapphlaupinu og endaði grátandi eins og Silvía Nótt eftir Eurovision keppnina í Grikklandi. Grenjandi með maskarann niður á kinnar. Brjáluð yfir skilningsleysi þeirra sem "áttðu sig ekki á" hverslags snillingur var þarna á ferð.

Sjálf hef ég lítinn áhuga á því að halda dauðahaldi í þessa gömlu sjálfsmynd enda hefur hún útvatnast á siglingum mínum og tapað sínu rómantíska gildi. Bárujárnshús er bara hús en ekki eitthvað sem segir mér hver ég er, slátur er bara slátur og ég tek hummus framyfir hamsatólg.

Mig langar mest til að hér verði tekin upp nýr gjaldmiðill og að við göngum til liðs við Norðurlöndin sem við höfum alltaf haft svo gaman af að miða okkur við þó ósköp lítið sé í raun til að miða við. Það myndi sannarlega verða okkur til góðs.

Við viljum kannski vera eins og Skandinavar en erum miklu líkari Austur-Evrópu þjóðum í hátterni okkar og framgöngu meðal hinna siðuðu, "nýkominn á mölina" eins og þau, nýlega byrjuð að spila með stóru liðunum með gamlar erfðasyndir upp í erminni. Gamlar leikreglur sem augljóslega duga skammt þegar á hólminn er komið. Skandinavarnir hafa spilað mikið lengur.

Mig langar að sjá gamlar valdaklíkur leystar upp og heilbrigða stjórnarhætti taka við. Mig langar að sjá okkur tengjast öðrum þjóðum á heilbrigðan hátt og hætta að vera þessi skrítna þjóð með þessar skrítnu "ubermench" hugmyndir um sjálfa sig. Einangruð lengst úti í ballarhafi með okkar fiskimið og fegurðardrottningar.

Ættbálkurinn þarf að endurmeta sig frá grunni.

Það þurfti bara þetta mikla högg til að fólk opnaði augun almenninlega fyrir þessu öllu og því hvert við erum komin. Hver gildi okkar eru orðin og hvort ekki sé tímabært að varpa þeim fyrir róða og endurvekja þau gildi sem skipta raunverulegu máli. Og þetta er að gerast og það er svo gott. Þó að við þurfum að leggja sitthvað á okkur og fórna ýmsu þá er þetta samt allt til góðs af því það sem tekur við verður eitthvað miklu betra. Það getur í það minnsta ekki orðið verra miðað við hvert stefndi.

***

Nú gildir það mestu að halda vökuástandinu sem lengst.

Valdaklíkurnar sem spila eftir gömlu leikreglunum hafa vanist því svo vel að Íslendingar segi aldrei neitt heldur samþykki hvaða vitleysu sem er og haldi áfram í neysluþokunni, meðan "einhverjir aðrir" taka þetta að sér. En nú virðumst við vera hætt því og á sama tíma flýtur kúkurinn upp á yfirborðið svo undir tekur í höllinni: Blúbbs, blúbbs, blúbbs...

Það eina sem ég sé sem vandamál... akkúrat í dag... er að skíturinn er svo víða að það er erfitt að átta sig á því hvar skal hefjast handa.

Persónulega tel ég mikilvægast að hefjast handa í fjármálageiranum og sjá til þess að sama hringavitleysan haldi ekki áfram þar. Nú ráða t.d. "ríkisbankarnir" því hvaða fyrirtæki fá að standa og hver munu falla.
Jón Ásgeir fær að kaupa 365 og BT og hvað meira? Uh... ég veit það ekki...
Á meðan fólk stendur á Austurvelli og mótmælir spillingu nær spillingin hæstu hæðum á methraða því nú er einmitt að duga eða drepast fyrir þá spilltu. Reyna að bjarga því sem bjargað verður áður en upp um þá kemst.

Við sem viljum mótmæla þessu þyrftum að hafa listann á hreinu. Í hvaða röð á að mótmæla, á hverju er best að byrja, hvað gerum við svo og hvernig. Það þarf stragedíur á svona stór mál. Vel útfærð plön.

Eins og ég hef áður sagt er ég reyndar svolítið hrædd við reiðina því hún byrgir mönnum oft sýn þannig að þeir sjá ekki skýrt hvað gengur á. Það er vel skiljanlegt að fólk verði reitt þegar það sér kúkinn en það er vont að dvelja þar lengi. Maður þarf á skörpum fókus að halda núna til að þetta land sem okkur langar til að búa á verði til. Við þurfum að stilla sjónaukann eins og leyniskytta og miða markvisst áður en við látum smella í gikknum.

Á morgun hefst ný vinnuvika. Sjáum hvað hún ber í skauti sér. Hversu margir "auðmenn" fá að hrærast áfram innan bankanna. Hvaða fyrirtæki fara á hausinn og hvað verður keypt af hverjum.

Heilbrigt verður ríkis-bankakerfið aldrei ef óheilbrigð græðgi og hringavitleysa fær áfram að ráða þar för. Og ef bankakerfið verður ekki heilbrigt þá verður þjóðfélagið ekki heilbrigt af því okkur mun aldrei takast að kvitta.
Við verðum skuldaþrælar að eilífu.
Vinnufólk okurlánarans -Feita karlsins með budduna.

Og viljum við það?