þriðjudagur, nóvember 18, 2008

Oflátungur Oddsson

Ég get ekki séð að þetta sé neitt flókið. Maðurinn er fárveikur oflátungur sem er við það að fara yfirum... ef hann er þá ekki farinn yfirum?

Þó ekki væri nema af heilsufarsástæðum þarf hann að hætta.

En hvað er hægt að gera?

Gengið situr í fílabeinsturninum. Er vant áreiti frá "almenningi"... kannski ekki svona miklu í einu en engu að síður held ég að þeir upplifi þetta einfaldlega áreiti. Er vant því til fleiri, fleiri ára að sitja á valdastóli og fá að tækla hlutina á eigin forsendum. En núna verður þetta að breytast. Ég set deadline í Febrúar.

Heyrði ansi skemmtilega greiningu á DO í dag. Tek það fram að hún er þó ekki frá sjálfri mér komin:

"Hann er fallisti úr MR með þriðju einkun í lögfræði. Kann vel að koma fyrir sig orði og veit sko alveg hvað múgsefjun er. Ég fór á þennan fyrirlestur hans í morgun. Tók eftir því að áður en hann byrjaði að tala var klappað í svona þrjár sekúndur en þegar hann lauk máli sínu stóð lófatakið í uþb fimmtán sekúndur. Maðurinn kann að hrífa fólk með sér. Hann safnar kringum sig JÁ mönnum. Ef þeir eru það ekki áður en þeir kynnast honum þá sér hann til þess að þeir verði það. Hann dáleiðir fólk til að trúa því sem hann er að segja. Verður aldrei fyrir gagnrýni af hálfu þeirra sem standa honum næst.
Davíð hefur heldur aldrei búið utan landsteinanna. Hefur alltaf búið á Íslandi. Alltaf miðsvæðis í Reykjavík eða í Vesturbænum. Þetta fólk sem er á móti EU hefur í stórum meirihluta aldrei búið utan Íslands. Maður sér það bara og heyrir á því hvernig það talar. Ef þú hefur búið í Evrópu þá veistu að fólk er bara fólk og það verður fáránlegt að vilja sitja einangruð hér á þessari eyju í norðurhafi".

Ég veit að þessi greining á kallinum er nokkuð spot-on því margir af mínum nánustu hafa verið í hópi nánustu samstarfsmanna DO og ég veit af fyrstu hendi að þetta eru trúarbrögð. Hef horft upp á það um áraraðir.
Kannski skrítið að segja þetta en hann minnir mig á einhverskonar spilltan en jafnfamt karísmatískan gúrú og finnst hreinlega ótrúlegt hvað sértrúarsöfnuðurinn hans hangir lengi þarna uppi.

Við Pétur fengum þá flugu í hausinn í dag að ganga bara í Sjálfstæðisflokkinn. Hvað gerist ef við... og 500 aðrir skráum okkur í flokkinn og förum að mæta á alla fundi fram að áramótum? Eru það ekki markvissari mótmælaaðgerðir en að hanga í lopapeysu niðri á Austurvelli eins og hippi á Torfunni og horfa á Hörð Torfa með rautt nef og eitthvað lið með "Kúkum á kerfið" skilti?

Held að það myndi skila meiri árangri að krækja höndum saman og fara eins og ruðningslið inn í flokkana. Meirihlutinn ræður manstu?

T.d. gætu allar þessar andspyrnuhreyfingar sem er verið að stofna á Facebook núna sameinast, skipt liði og skráð sig svo í flokkana. Ekki galið? Sameinuð og allt það...