Hvað skiptir máli?
Á leiðinni í ræktina í morgun talaði ég við vin minn. Hann sagði að hann hafi borgað 13.000 fyrir bílinn sinn á mánuði þegar hann keypti hann. Núna borgar hann 29.000. Svo sagði hann að nú ætlaði hann að lifa á kruðum og túbukavíar, þrátt fyrir að túban væri kominn í rúman 300 kall og að því sögðu skelltum við bæði uppúr.
Í búningsklefanum hitti ég stelpu með Louis Vuitton tösku. Hún er í MBA námi. Sagði að það væri kannski ekkert rosalega skemmtilegt nám m.v. stöðuna núna. Ég reyndi að segja kruðubrandara en henni fannst hann ekkert voðalega fyndin.
Núna vorkenni ég sérstaklega fólki sem hefur kappkostað að ganga í augun á öðrum. Eitthvað svo trist. Sitja uppi með innfluttan kagga, atvinnulaus.
Sjálf hef ég prófað að búa við ótrúlegar allsnægtir. Með þjónustustúlku hlaupandi á eftir mér ef ég missti eitthvað í gólfið og hvítan Range til að komast á milli staða. Ég hef líka búið á móti mexíkönskum dópdíler með pittbull hund bundinn í keðju á lóðinni. Í húsi með fimm köttum og einstæðri, lesbískri, listrænni móður.
Á þessum tíma var dollarinn í 120 kalli minnir mig. Og ég komst að því að það skiptir ekkert máli annað en að fá mat að borða, hafa gott rúm að sofa í, geta komist á milli staða og gleymt sér í góðra vina hóp.
|