laugardagur, október 11, 2008

Ég mæli með sjóði 9

Í þarsíðasta mánuði fór ég til þjónustufulltrúa míns í bankanum með slatta af peningum. Ég vildi gera eitthvað skynsamlegt við þá. Byrjaði á að tala um að borga niður 300 þúsund kallinn sem ég skuldaði af bílnum. Hann er á útlensku körfuláni. Hún sagði með hiki í röddinni: "Já, en gengið gæti lækkað. Við vitum það ekki" og ég hugsaði með mér að kannski gæti það gert það. Ákvað að bíða -Hefði betur sleppt því. Sillý me.

Þegar ég sagði henni hvað ég vildi leggja mikið inn prentaði hún út blað og benti mér á sjóðina. Mælti sérstaklega með sjóði 9.
Það var eitthvað við röddina hennar sem sagði mér að hugur fylgdi ekki máli. Mér fannst eins og henni hefði verið sérstaklega uppálagt að mæla með þessu við mig en að eitthvað við sannfæringu hennar væri bogið. Svo ég fylgdi innsæinu í þetta sinn, afþakkaði sjóðinn og bað um að fá frekar að leggja þetta inn á venjulegan reikning með háum vöxtum. Og ég gerði það.

Nú... síðan hefur sitthvað breyst í efnahagslífinu og til að baktryggja okkur stelpurnar fór ég aftur í bankann í vikunni og stofnaði reikning í nafni hennar. Hún er tæpra fjögurra ára.
Lagði inneignina á þann reikning og trítlaði svo heim. Dóttir mín skuldar nefinlega ekkert í húsnæðislánum og þar sem hún gerir það ekki ætti innistæðan að vera öruggari á hennar en mínu nafni sem er jú með húsnæðislán í bankanum... en ekki í erlendri mynt. Hann Markús, fyrrum þjónustufulltrúi minn, var nefninlega ekkert svo sannfærður um ágæti þeirra lána þegar ég keypti kofann fyrir þremur árum. Takk Markús. Guð blessi þig.