föstudagur, júní 06, 2008

Um mataræði íslendinga fyrr og nú

Ég hugsa oft um það hvernig lífið hefur breyst og þróast frá því ég var barn og þar til í dag. Þjóðin hefur breyst, menningin hefur breyst, eiginlega svo mikið að maður hefur getað horft á það eins og kvikmynd af blómi að spretta í stop-motion. Eða arfa?

Einu sinni bjó ég í Kaupmannahöfn í fjögur ár. Ég kom ekkert rosalega oft heim, enda flug mikið dýrara þá en í dag, en þegar ég kom þá sá ég alltaf eitthvað nýtt. Ný hús, nýja siði. Man til dæmis eftir því þegar ég kom heim og allt í einu máttu verslanir hafa opið á sunnudögum. Man þegar ég sá fyrstu 10/11 búðina. Þetta var síðustu fimm árin fyrir lok síðustu aldar. Mér fannst einhvernveginn eins og áður óþekktur kapítalisma móri væri byrjaður að tröllríða húsum. Hann hefur heldur betur gert það síðan.

En lengra aftur í tímann... og þá er það matur -af því ég var að tala um mat og holdafar hér áður. Þegar ég var krakki voru allir matartímar vel skipulagðir út vikuna. Á mánudegi vissi maður að það myndi vera fiskur í kvöldmatinn, það kom til með að vera hakk og spagettí einhverntíma í vikunni og kjötbollur í hvítkáli eða með brúnni sósu voru líka garantí. Það voru fjórar máltíðir yfir daginn og stundum hressing fyirr háttin. Morgunmatur, hádegismatur, kaffi, kvöldmatur...
Fyrir utan þetta skipulag var annað sem hjálpaði fólki að halda sér í eðlilegu holdafari. Það var ekki keyrt útum allt. Það var gengið út í búð og gengið heim með pokana. Maður var oft og iðulega sendur út í búð til að kaupa brauð eða eitthvað annað og nota bene, það vissu það allir að fraskbrauð var óhollt og heilhveitibrauð hollt (og fátt annað í boði). Stundum hélt ég að mamma hefði fætt mig í heiminn til að senda mig út í búð.

Ég man ekki til þess að hafa séð svona frosinn skyndimat heima hjá mér. Aldrei. Þetta var alltaf búið til og svo voru afgangar borðaðir næsta dag ef eitthvað varð eftir. Brauð með kartöflu og pipar. Upphitað hakk og spaghettí. Svona var gert... og það var í mesta lagi eitt barn eða unglingur í bekknum sem var ekki í kjörþyngd, enda allir með nesti að heiman.

"Ekki drekka kókið!!"

Kókakóla var munaðarvara. Munaðarvara í glerflösku með áskrúfuðum tappa. Skinka var líka munaðarvara sem afi kom með heim að utan. Kókið borið fram á sunnudögum með lærinu.

Já, við þetta ólst ég upp. Stundum minnir þetta mig á Kúbu-lífsstílinn. Nægjusemin var þvílík að við þurftum ekki einu sinni sjónvarp á sumrin og frá því var líka frí einn dag í viku. Það var enginn að hugsa um eggaldin, egg-benedikt eða fimm eggjahvítur með spínati og túnfisk.

Það er mikið rætt um útlitsdýrkun og sjálfsmyndir í dag. Ég man ekkert sérstaklega eftir því að stelpurnar í kringum mig hafi verið þjakaðar af útlitsdýrkun. Man ekki eftir neinni sem var með anorexíu eða aðrar átraskanir. Anorexía hefði eins getað verið pólskur bær. Ég man heldur ekki til þess að við höfum notað brjóstahaldara eða rakað á okkur blygðunina. Það bara var ekki dottið inn í þá daga. Og stelpur og strákar litu mjög svipað út. Ef þú varst í trefla-pönk-úlpu geiranum þá voru það þröngar gallabuxur, bolur og flatbotna skór og ef þú spilaðir með hinu liðinu þá gekk það sama yfir bæði kynin, hárlakk, brúnka, herðapúðar og gloss.

Ég held það hafi verið milli 1985 og 1990 sem einhver úrslita menningaráhrif byrjuðu að eiga sér stað. Ég hef tekið greinilega eftir því að fólk sem er fætt aðeins fimm árum á eftir mér er mótað á allt annan hátt. Ekkert sjónvarpsfrí og kjötsúpa heldur Bylgjan og vídeóleigur. Kók ekki lengur spari. Kók og Þykkvabæjarsnakk á vídeókvöldum. Vanræktir krakkar sem sáu um sig sjálfir. Ömmu pizza í ofninn. Peningar í vasanum.

Svo finnst mér þetta bara vera að þróast í einhverja vitleysu sem ég skil satt best að segja ekki alveg í. Það eru svo miklir öfgar í allar áttir. Þegar ég stundaði nám í ljósmyndun í Iðnskólanum fyrir fimm árum þá þurfti ég að borða í hádeginu. Það sem var í boði, fyrir utan heitan og oftast mjög grísí mat, voru bakkelsi, sælgæti og samlokur og hamborgarar og franskar á 350 kall. Ekkert sykurlaust, ekkert án gerfisætu og næstum því hver einasti krakki gekk um með koffínhlaðið aspartam gos í hendi og muffinsið upp úr buxnastrengnum. Hvaða flipp er þetta?

Þessir krakkar eru líka flestir keyrðir í skólann, ef þeir eru ekki komnir með bílpróf. Það er auðmýkjandi fyrir mörg börn að taka strætó og flestir foreldrar treysta varla börnum sínum til að taka strætó. Mamma var sex ára þegar hún byrjaði að taka strætó úr Kópavogi til Reykjavíkur til að fara í ballett hjá Eddu Scheving. Mig minnir að ég hafi verið sjö.
Það er hreyfing að ganga út í strætóskýli og heim úr strætóskýli. En nei, það er orðið hættulegt að hreyfa sig í dag. Við erum samgróin bílunum okkar. Eins og kanar í miðríkjunum. Við keyrum eins nálægt dyrunum og komist verður, til að þurfa ekki að leggja of mikið á okkur... og við borðum enn eins og okkar næsta verk sé að fara að henda böggum upp á heyvagn eða hlaupa á eftir kindum niður fjall. Nei, okkar næsta verk er að keyra í 10/11 til að kaupa Hraunbita og Pepsi Max og hafa það soldið kósí.

Það þarf að uppfæra forritið um svona sautján útgáfur þegar það kemur að þessum efnum og það er ástæðan fyrir því að það er hægt að klípa í dágóða mör á flestum okkar. Það er garanterað að þú kemur til með að fitna ef þú ert eldri en 27 ára og ekki búin að taka meðvitaða ákvörðun um að hreyfa þig eða spá í þá fæðu sem fer í skrokkinn. Nema þú sért Forrest Gump týpan, eftir að hann ákvað að hlaupa -because he felt like it.

Og þá er það aftur sjálfsmyndin. Ég tók einu sinni viðtal við konu sem át og át eins og enginn væri morgundagurinn. Svo ákvað hún að hætta. Hún missti 50 kíló. Fór að hjóla. Ákvað hvað hún ætlaði að borða yfir daginn og stóð við það. Hún stundaði ekki kynlíf með eiginmanni sínum. Háttaði sig í myrkri. Svaf með súrefniskút út af kæfisvefni og þá er bara fátt eitt nefnt.
Hún gafst upp á að bíða eftir magaminnkun af því það voru 150 manns á biðlista. Aðgerðin kostar ríkissjóð eina milljón og meðferð á Reykjalundi kostar hálfa. Ein og hálf milljón sinnum 150 á misseri, og svo aftur og aftur 150. Reiknum.

Og þessu vesalings fólki fjölgar. Það ætlar sér enginn að verða svona en það gleymist bara að uppfæra forritið.
"Um 1938 voru um 5-10% skólabarna yfir kjörþyngd, en um 20-25% árið 1998" (landlæknir). Það eru tíu ár síðan. Þau eru fleiri í dag. Ég sá það í Iðnskólanum.

Og forritið er meira að segja það bilað að jafnvel þó að við séum bílaþjóð þá er ekki hugsað um að búa til bílastæði í borginni. Það eru byggð hús án tillits til þess að það er einn bíll á mann sem kemur til með að dreifast í kringum húsin, að frátöldum gestum. En það er í raun annað mál þó að afneitunin sé líka skýr á þessu sviði.

Ísland er svo lítið að það smitast allt mjög auðveldlega hérna. Munnmæli, séu þau nógu krassandi, geta farið með ljóshraða yfir landið á tveimur dögum. Allskonar trend smita stundum hálfa þjóðina á afar skömmum tíma en eitthvað virðist þessi almenna skynsemi stundum láta bíða eftir sér.

Það á ekki að þurfa einkaþjálfara til að segja manni að borða fimm sinnum á dag. Það á ekki að þurfa lækna, íþróttaálf eða íþrótta "völu matt" til að láta mann vita að það er líkamanum nauðsynlegt að fá hreyfingu. Kannski þarf kreppu? Hækkandi bensínverð? Ég veit ekki... ég veit bara að þetta þyrfti að breytast, svo nær það ekki mikið lengra.

Til gamans læt ég hér með myndskeið úr Adams Æbler. Þetta er ein af mínum eftirlætis myndum og fjallar að stórum hluta um fyrirbærið afneitun. Þarft að snakke flydende dansk tl að skilja grínið.

Góðar stundir