föstudagur, júní 27, 2008

Mér leiðist ekki

...nei, get sko ekki sagt það. Hef svo mikið að gera að ég veit varla hvort ég er að koma eða fara. Er í þremur vinnum, þar af einni verktakavinnu við að ritstýra blaði, hreyfa skrokkinn, skipta um glugga, sjá um ungann minn fína sem er ávallt í forgangi og skipuleggja utanlandsferð ásamt því að vinna að stofnun fyrirtækis -svo mikil er kreppan heima hjá mér.

Svo tók ég mér eina pásu í sólinni í dag. Já eina pásu. Fór niður á tröppur, drakk heslihnetukaffi reykti kaprí og var þar stoppuð af konu sem lét sér detta í hug hvort ég væri ekki tilvalinn í að leika í auglýsingu. Spurði hvort ég hefði leikið í Sódómu og allsendis taugaveikluð hrópaði ég DÚFNAHÓLAR TÍU svo að hárið á henni stóð aftur. Svo hló ég geðveikislega og tók stóran smók. Stressandi... nei-djók.

Á leiðinni upp í lyftunni varð mér hugsað til þessara manna sem maður hefur heyrt um sem fara að loknum erfiðum vinnudegi og láta gúmmíklædda kvenmenn flengja sig. Þeim finnst þeir slaka svo vel á þannig. Geta ekki hugsað um neitt annað á meðan.
Í fyrsta sinn skildi ég pælinguna en ég held ég myndi kjósa teygjustökk í stað svipuhögga. Eða sólarhring í spilavíti í Las Vegas (þar sem ég verð reyndar innan skamms).