Merkingar, meiningar og meðvirkni
The Screwtape letters er vafalítið með betri bókum sem ég hef lesið. Hún fjallar um bréfaskriftir milli tveggja djöfla þar sem sá eldri, Screwtape frændi, kennir yngri frænda sínum hvernig á að fokka öllu upp.
Í einum eftirminnilegasta kaflanum talaði Uncle Screwtape meðal annars um það hversu áhrifaríkt það er að krefjast þess að orð séu tekin bókstaflega, eða á face value eins og það kallast á ensku. Hann bendir djúníor á að til þess að spilla "sjúklingnum" og hans fjölskyldulífi sé hreint fyrirtak að láta hann ávallt krefjast þess að orð hans séu tekin 100% gild og öðrum afbrigðum tjáningar, eins og blæbrigðum raddar og tóni eða svipbrigðum sé afneitað. Sem dæmi um þetta má nefna:
Ertu í fýlu?
NEI, ÉG ER EKKI Í NEINNI HELVÍTIS FÝLU!
... og þar með á það að vera útkljáð. Þetta er reyndar öfgafullt dæmi því það er sjaldnast að fólk sé svo afdráttarlaust í sinni kröfu um face value. En sannarlega spillir þetta fyrir framþróun og jákvæðri atburðarrás í mannlegum samskiptum.
Til dæmis gerir þessi krafa þann sem ekki getur samþykkt hana oftar en ekki meðvirka/n. Meðvirkni sprettur nefninlega af því þegar augljósu ástandi er afneitað og látið er sem allt sé í góðu. Mér finnst fátt erfiðara en að umgangast fólk sem er orðið einkennilegt af svona meðvirkni, nema þá ef ég verð meðvirk með svona ástandi sjálf. Svo er það alltaf yndisleg lausn þegar ástandið er endanlega viðurkennt og allir geta flogið eins og eldfuglar úr öskustó.
|