miðvikudagur, mars 12, 2008

Veggfóður -erótísk ástarsaga

Nú er setið hér á heimili mínu og horft á kvekmendina Veggfóður í Philips ektóplasmanum. Í aðalhlutverkum eru Baltasar Kormákur, Steinn Ármann og Ingibjörg Stefánsdóttir. Okkur finnst þetta ákaflega fyndin mynd. Ekki af því hún á að vera fyndin, heldur vegna þess að hún er með því stirðbusalegasta sem við höfum séð í langan tíma.

Sem ég skrifa þetta er sturtusena á skjánum. Leikararnir kviknaktir að tala um typpin á sér: "Krumputyppi!" hrópaði virðulegur kynningarfulltrúi SÁÁ rétt í þessu.

Þó að myndin sé í sjálfu sér ótrúlega vitlaus er gaman að horfa á horfnar minjar eins og Rósenberg kjallarann, Tunglið, N1 Bar og fleiri staði sem við lyftum okkur upp á hér í denn. Svo ekki sé minnst á tuttugu árum yngri leikarana.

Nú hefur verið ákveðið að í kvikmyndaklúbbnum Púka skuli hér eftir horft á eins margar íslenskar myndir og geðheilsan leyfir. Eða þangað til maður er farinn að eiga samtöl þar sem tveggja sekúndna þagnir eru á milli setninga og munnurinn hreyfist eins og munnurinn á þessum sem les fréttir á táknmáli. Þó hef ég tekið loforð af klúbbmeðlimum að Blossi fái ekki að fara í spilarann.