föstudagur, febrúar 22, 2008

Af föstu minni, dvergaorgíum og Harry Potter prikum

Ég fastaði í gær af fúsum og frjálsum vilja. Uppáhalds karlmaðurinn í lífi mínu hefur stundað þetta í þrjú ár, að fasta einu sinni í viku og hann hvatti mig til að prófa. Ég sló til, enda upplifði ég mikla júfóríu síðast þegar ég fastaði fyrir aðgerð. Það virðist hafa sérdeilis góð áhrif á líkamann að gera þetta. Það eina sem fór ofan í mig í gær var glas af grænmetissafa sem ég bjó til hér með safagræjunni minni og síðdegis fór ég á búst barinn og fékk mér ávaxtadrykk úr ástaraldin og mangó, ananas og berjum. 


Í dag er ég ótrúlega skýr og skörp í höfðinu. Mallinn er alveg flatur og ég held ég hafi aldrei á ævinni sofið eins vel og í nótt. Ég skil gyðingana, múslimana, jógana og Jesú betur og held að ég gæti hæglega vanið mig á þetta. Fyndið samt hvað ég hugsaði rosalega mikið um mat á meðan ég var að þessu. Matur var sífellt að koma upp í kollinn á mér. Allskonar matur, meira að segja matur sem mér finnst ekkert endilega neitt svakalega góður. 

Í gærkvöldi skrapp ég á handritanámskeið hjá frænda mínum. Þar horfðum við meðal annars á Galdrakarlinn í OZ og þegar Dorothy hitti dvergana kom einn á námskeiðinu með mjög mikilvægar upplýsingar þess efnis að þessir dvergar hefðu víst verið til vandræða við tökur á myndinni árið 1938. Þeir lágu í orgíum inni í treilerunum sínum og það þurfti víst að hafa mikið fyrir því að fá liðið í tökur. Mér þótti þetta frekar fyndið. Frávikin komast í feitt. Allir vanir því að vera svaka frávik þar sem þeir eru vanalega. Fljúga svo frá fylkjum landsins og mætast öll á settinu á OZ. Við hverju er hægt að búast?
Í kjölfar þessa kom önnur saga sem spratt af vondu norninni á kústskaftinu. Mér skilst að foreldrar hafi fengið að senda Harry Potter kústa til baka af því dætur þeirra höfðu full gaman af því að fljúga á þeim. Þetta voru svona "töfrakústar" með innbyggðum titringi til að auka á ævintýrastemmninguna.