fimmtudagur, janúar 03, 2008

Ungfrú Seltjarnes

Ég skellti mér á cross trainerinn í morgun og hlustaði á Billy Idol. Mikið var það hressandi. Hamaðist í 45 mínútur og leið eins og nýslegnum túskildingi á eftir. Það er svo gott fyrir geðið að hreyfa skrokkinn sinn. Svona hangir þetta allt saman, saman.
Við hliðina á mér var stór og feitur maður sem hafði engin heyrnatól í eyrunum sínum. Ég svona hálfvorkenndi honum að standa á cross-trainer og hafa engin heyrnatól. Það lá við að ég myndi bjóðast til að taka annað út úr mínu eyra svo hann gæti líka skemmt sér yfir Eyes Without a Face með Billy Idol, en ég reiknaði út að þar sem hann var svo miklu stærri en ég þá hefði heyrnartólið alltaf verið að detta út úr eyranu á honum og það hefði orðið okkur báðum til vandræða. Þegar ég kom heim eftir ræktina leit ég í spegil og sá að ég svona glóði í framan. Það er af því blóðrásin hefur svo gott af hreyfingunni og þar með húðin. Hreyfing er svo sannarlega af hinu góða.
Nú hafa þau sett upp nýtt World Class á Seltjarnarnesi og þar með fullkomast líf mitt. Kann betur við litlar stöðvar og þvílíkur elegans að geta svo brugðið sér í sund og gufu eftir æfingar þegar maður hefur nægan tíma. Ég ætla að verða ungfrú Seltjarnarnes í mínum riðli þegar sú keppni verður haldin næsta sumar. Standa glansandi og tárvot með fegurðarbikarinn á hæsta pallinum í félagsheimilinu. Ó, sjá dagar koma! Hinar stelpurnar mega vara sig!