þriðjudagur, janúar 29, 2008

Allir svo fokking líbó

Í tilefni af nýrri trekantstísku og líbóheitum langar mig að hefja þessa færslu á klippu úr hinni eftirminnilegu mynd Tilsammans (tekur sjö mínútur og er á sænsku).

Hér má sjá Lasse "líbó" gera upp tilfininngar sínar varðandi frelsi innan sambandsins, en það er eitthvað sem hippar sjötta áratugarins fundu upp og við erum enn að gubba yfir, eins og Lasse. Sumir gubba bara inni í sér, aðrir gubba í klósettið eins og hann -enda var líbó áskorun Lasse nokkuð mikil.



Persónulega er ég af gamla skólanum þegar það kemur að svona málum og það eru flestir vinir mínir líka. Ætli við séum ekki svolítið 50's þegar öllu er á botninn hvolft. Vinkona mín taldi til dæmis einu sinni manni það til tekna að hann ætti engar vinkonur hingað og þangað. Það er nefninlega svo leiðinlegt þegar menn sem maður er að deita eiga margar vinkonur sem þeir eru að rabba við í tíma og ótíma. Tala nú ekki um þegar vinkonurnar eru meira eða minna á lausu og kynferðislega aðlaðandi, alls óskyldar honum og gagnkynhneigðar.

Ég og mínir nánustu vinir virðumst samt vera af einhverjum sjaldgæfum stofni því á meðal fólks virðist sú regla almennt gilda að það sé ekkert sjálfsagðara en að menn og konur fái að halda í slóð af "aðdáendum" eftir að komið er inn í samband. Aðdáendum sem ganga undir nafninu "vinir". "Vinir" sem viðkomandi hefur jafnvel átt í kynferðissambandi við. Það er nefninlega svo huggulegt að eiga mök við vini sína. Það eflir svo vinskapinn. Það er svo gott á móti skammdeigsþunglyndi.

Sjálf set ég fólk í fleiri kategoríur en "vini". Fyrrum ástmenn eru t.d. fyrrum ástmenn og þar sem þeir eru "fyrrum" þá fara þeir á "block & delete" listann. Fyrrum kærastar eru fyrrum kærastar og þá heilsar maður upp á þegar maður er svona að vappa á förnum vegi og rekst óvart á þá. Ég er lítið fyrir það að skreppa út að borða með fyrrum ástmönnum og kærustum, enda flækir það lífið óþarflega mikið að mínu mati.

Stundum eiga vinkonur mínar (s.s. sem tilheyra ekki andlega heilsuhringnum) í vandræðum með þetta. Finnst hrikalega óþægilegt að kærastarnir séu að halda sambandi við "vinkonurnar" sem tilheyra 50 kg, 90-60-90 34 DD kategóríunni. Fara með þeim á trúnó og tjatta á MSN.
Þær geta verið ráðvilltar og vita ekki hvernig á að taka þessu en þá spyr ég oftar en ekki:

"Væri amma þín sátt við að afi þinn væri út að fá sér bjór með Dísu Dröfn?"

...og um leið er eins og þoka blekkingarinnar leysist upp og kristalstær einfaldleikinn afhjúpast fyrir augunum á viðkomandi. NEI... AUÐVITAÐ hefði amma aldrei nokkurn tíma sætt sig við þetta rugl... Afi hefði ekki heldur sætt sig við að amma væri að fá sér sjerrí með karlkyns vinum sínum eða fyrrum kærustum -og þar með er málið afgreitt. Þetta er ekki flókið.

Amma og afi hefðu ekki verið svona fokking líbó. Ekki heldur langamma og langafi og ekki kynslóðirnar á undan þeim. Það voru bara þessir árans hippar sem tóku sýru og fóru úr að neðan og rugluðu svo þá sem á eftir komu. Af því við eigum að vera svo líbó. Af því það er ekki töff að vera afbrýðissamur. Af því maður "á" ekki annað fólk.

Svo sannarlega á maður aldrei annað fólk en mannleg samskipti eru mannleg samskipti og það gilda sömu lögmál í öllum samböndum, hvort sem þau snúast um ást eða pólitík eða vinskap eða hvað. Maður sannar heilindi sín með því sem maður gerir -ekki því sem maður segir. Maður fær fólk til að treysta sér með því sem maður gerir -ekki því sem maður segir. Það treystir enginn stjórnmálamanni sem þykist tilheyra einum flokki en er alltaf í kaffi með þeim sem tilheyra öðrum.

Það er vel hægt að fela sig á bak við "þetta er bara vinur minn" en mín niðurstaða er sú, að þegar búið er að hella sannleikaelexírnum yfir málið og hann er búinn að bræða allar blekkingar í burtu, þá situr berrassaður heiðarleikinn á gólfinu og hann segir; Ég kann vel að meta þá aðdáun sem þessi vinur minn sýnir mér; mér hefur enn ekki tekist að fá hana í rúmið; ég vil halda möguleikunum opnum; ég tími ekki að sleppa þessum/þessari; hann er alltaf til í að gera mér greiða...

EN... það eru bara svo fáir sem tíma að vera svo heiðarlegir og svo fáir sem þora að stíga fram og segja köttaðu krappið af því við eigum að vera svo fokking líbó...

Þá bið ég bara um meira fiftís. Guð gefðu okkur meira fiftís. Við hefðum svo gott af meira fiftís.