mánudagur, desember 31, 2007

Lokablogg ársins

Ég hugsa að ég hafi verið misiðinn við að skrifa á þessa vefsíðu í ár. Byrjaði að skrifa hérna árið 2002 eftir að ég kom frá Ameríku og var að vinna á næturvöktum á elliheimili. Þá leiddist mér svolítið. Það var ekki mikið um verkin og því mikil afþreying fólgin í því að skrifa svona allskonar blogg. Til dæmis svona blogg og sitthvað fleira.

Ég hékk líka mikið á msn þar sem ég ræddi málin við Genny í New York. Genny var sko kærasta Emils sem ég hafði kynnst í NY. Hann vildi vera kærastinn minn og kom hingað til Íslands oftar en einu sinni að hitta mig. Hann lést vera einhleypur og til í hvað sem er, svo lengi sem ég væri inni í myndinni. Hann bað mig að flytja út til sín þannig að við gætum alltaf verið saman, en þá....! Kom bréfið frá Genny þar sem hún útskýrði yfirvegað að hún hefði verið kærastan hans í fimm ár og að þau hefðu planað að hefja sambúð fljótlega og ég veit ekki hvað og hvað. Ég varð nottlega steinhissa, ákvað að leyfa honum að njóta vafans og tók þriðju gráðu yfirheyrslu sem endaði þannig að ég fann út að Genny sagði dagsatt. Ekki nóg með það, heldur hafði hann verið á msn við hana þegar hann sat og fékk lánaðan lappann minn við eldúsborðið og það sama átti við handan atlantshafsins þegar hann var staddur í Jórvík. Hann pikkaði eldheit ástarbréf til mín úr tölvu unnustu sinnar.

Við dömurnar urðum jú heldur betur reiðar og ákváðum að fletta ofan af honum eins og við mögulega gátum. Niðurstaðan varð sú að maðurinn var kompölsívur flagari, gat sér enga björg veitt og þetta endaði vitanlega með því að hann sat uppi einn og auðmýktur, en við höfðum fundið nýja vinkonu í stað þessa afleita ástmanns.

Síðan þá eru nú liðin rúmlega fimm ár og hvorki ég né Genny höfum fundið ástina þrátt fyrir nokkrar tilraunir. Við höfum hist eftir að þetta gerðist og erum alltaf í smá sambandi en ég ætla að kíkja til hennar í Brooklyn á leið minni til LA næsta vor. Hún er kjarnakona eins og sjá má á myndinni. Hvað listamanninn Perez varðar þá er hann einhversstaðar í stórborginni að flaga sig til og frá geri ég ráð fyrir. Láta typpið og testesterónið ráða ferðinni og skemma fyrir sér um leið. Ég held í raun að ég viti fátt jafn aumingjalegt og karla sem stjórnast af typpinu á sér og hormónastarfseminni sem því fylgir. Eins og hundar.

Núh... ég ætlaði reyndar ekki að tala svona mikið um þetta en það er samt ágætt. Ég hef semsagt bloggað síðan haustið 2002 og núna er þetta komið á sjötta ár.

Ég skrifa mismikið eftir því hvað gengur á í lífinu og frásagnagleðin tekur breytingum. Í upphafi hélt ég að þetta væri bara fyrir vini og kunningja að lesa en svo áttaði ég mig á að allir geta lesið þetta. Þá breytti ég um áherslur og varð minna persónuleg. Ég kann ekki við að vera of ber að neðan í rafheimum. Reyndar er ég stundum persónuleg, en það er ekkert á við suma sem skrifa á svona síður. Oftast nota ég þetta til að kvarta og röfla yfir því sem mér mislíkar og það er hið besta mál. Tuðhugsanir eru eins og prump. Þær leita út. Svo er þetta miðill til að deila ýmsu öðru. T.d. Youtube fælum, myndum, hlekkjum og hinu og þessu. Sharing is caring eins og konan sagði.