sunnudagur, júlí 01, 2007

Við erum það sem við etum

Það er ekki nokkur ástæða fyrir okkur að borða allt þetta magn af kjöti og mjólkurafurðum sem við gerum á hverjum degi. Mjólk er ekkert sérstaklega góð fyrir líkamann og ekki heldur skyr, ostur, smjör, jógúrt og allt þetta sem fólk dælir í sig dag eftir dag. Ég er ekki að segja að það eigi aldrei að borða þetta, en dagleg neysla getur ekki verið til góðs. Sérstaklega ekki þegar framboðið af öðru er orðið svona algengt og enginn býr við skort.

Ef horft er á mataræði íbúa heimsins kemur á daginn að þar sem fólk nærist fremur á grænmeti og korni en kjöti og mjólk eru færri heilsufarsvandamál á borð við krabbamein, hjartasjúkdóma og blóðsjúkdóma.

Vandamálið snýst nefninlega ekki lengur um skort heldur ofeldi.

Þegar ég var barn voru keyrðar propaganda herferðir í sjónvarpinu sem hvöttu mig og þjóðina til að borða ost og drekka mjólk Það var Mjólkursamsala ríkisins sem stóð að þessari hvatningu.
Svo er það Sláturfélag Suðurlands sem hvetur fólk óspart til að borða pylsur. Dressar þær upp sem litla hressa krakka á hjólabrettum og heldur því fram að "Íslendingar borði SS pylsur". Og það gera þeir. Daginn út og inn eins og ekkert sé við það að athuga. Það er merkilegt hvað kjöt og mjólk er auglýst mikið í sjónvarpinu. Ég hef aldrei séð grænmeti auglýst svona.

Fæðupýramídinn segir að það sem á aðallega að fara ofan í mann er kornmeti, grænmeti og ávextir. Ket og mjólkurvörur eru svo í afar litlu magni þar fyrir ofan. Við þurfum um 50 gr af próteini á dag og það má fá úr mörgu öðru en kjöti.

Af hverju eru þá margir dagar svona hjá fólki:

Morgun: Seríós með mjólk

Hádegi: Kjötbollur, sulta, kartöflur, niðursoðnar baunir.

Kaffi: Kaka, kók, samloka með skinku og osti.

Kvöld: Hakk og spagettí, hvítlauksbrauð, kók.

Sumsé... eina grænmeti dagsis voru grænar baunir... og svo kvartar fólk yfir sleni, fitu og heilsuleysi?

Eftir tíu ára hlé frá kjötáti tók ég upp á því í fyrra að borða kjöt. Geri það í mjög litlu magni en er að hugsa um að minnka það enn meira eftir grillveislur undanfarinna daga.

Finn það á maganum mínum að honum finnst þetta ekkert sérstaklega gaman. Munnurinn kætist í augnablik en maginn kvartar. Og ef maginn kvartar þá kvartar líkaminn og ef líkaminn kvartar þá kvarta ég í heild minni.

Mjólkurvörur hef ég svo nánast látið á hilluna nema á tyllidögum eins og í dag. Borðaði amerískar pönnsur sem innihéldu hálfan mjólkurlítra og maginn fór á flug. Þetta var eins og pínu fyllerí. Gaman meðan á því stóð. Skrítið eftirá.

Fyrir fólk sem hefur oft stíflaðar ennisholur, þaninn maga og hávaðagang í kútnum mæli ég með því að prófa að sleppa alveg að borða mjólkurdót í nokkra daga og sjá hvað gerist. Ef það er fullkomlega óhugsandi þá allavega að sleppa öllu nema kannski smjöri, stífum osti og bio jógúrti.

Ég verð að segja að það var himnasending fyrir mig að átta mig á orsakasamhenginu þarna á milli. Sérstaklega fylgdi bölvun því að fá sér latte svo í dag er það bara soja latte sem er engu síðri drykkur. Jafnvel betri ef eitthvað er.

Fyrir utan þetta þá er ekki gott að drekka kaffi daginn út og inn. Kaffi er stressandi og hver þarf stress? Ekki ég... svo mikið er víst. Ég er að hugsa um að gera það að heilagri markmiðaþrennu í lífi mínu að vera sem minnst stressuð, umgangast ekki leiðinlegt fólk og reyna að fara snemma að sofa.