laugardagur, júlí 07, 2007

Go west

Þá er ég kominn vestur eftir 9 klukkustunda ökuferð á 49 ára afmælisdegi mínum sem var í gær. Maðurinn hennar mömmu er kallinn sem býr til bílalest á þjóðvegum. Hann neitar að aka yfir hámarkshraða og stillir krúskontrólið akkúrat á 90. Á malarvegi ekur hann uþb á 50.

Við stoppuðum fjórum sinnum á leiðinni og í eitt skiptið átum við kótilettur og hammara með eggi. Ég tók myndir inni á klósettinu. Ljósmyndaáhugi minn er að aukast og það er skemmtilegt. Ég er nú einu sinni með próf í þessu. Í annað skiptið létti ég á mér á bak við stóran stein, í það þriðja gerðum við mamma jóga og teygjuæfingar úti í móa og í fjórða skiptið þreif maðurinn hennar flugnaslátrið af húddinu. Þvílíkt massacre.

Nú er laugardagsmorgun og brúðkaupið mikla fer fram seinnipartinn í dag. Kötturinn Sóldís, sem er að deyja úr greddu, liggur hér fyrir framan mig í gluggakistunni og slakar á þar sem hormónarnir eru í andartaks niðursveiflu. Kannski er hún búin að fá?
Á rúðunni rölta flugur. Í baksýn er snúra með gulu handklæði, lúpínur og sóleyjar og hátt, hátt fjall.

Brúðurinn fór ekki í megrun fyrir brúðkaupið og kjólinn pantaði hún hjá brúðarkjólaleigu Dóru. Hún og guminn kynntust í sumarbúðum þegar þau voru sjö ára. Hann er úr næsta þorpi. Frekar sætt alltsaman.

Áðan fékk ég mér heimagrafinn lax og kaffi með frænku, frænda og afa. Við ræddum meðal annars endurvinnslu, lestur moggans, stripp og mansal, börn sem eru hálf grænlensk og hálf íslensk og tengslin milli krabbameins og mjólkurvöruneyslu.

Ég er að spá í að leggja mig aftur núna, eða fara í sund, eða labba eitthvað um.... hummm.... það er varla að maður kunni á þetta tempó. Kontrí tempó.