sunnudagur, júlí 08, 2007

Einkaleyfi á eigin hindrunum

MHG hefur vingast við araba og hætt að borða dýr í fjóra daga.

Mér finnst alveg furðulegt hvað mannskepnan heftir oft sjálfa sig með fyrirfram ákveðnum hugmyndum um hindranir.
Yfirlýsingar á borð við: "Ég gæti aldrei lifað án þess að borða kjöt" eða "ef ég myndi hætta að drekka þá yrði ekkert gaman hjá mér lengur", eða "Ameríkanar eru leiðinlegir", gera ekki annað en að takmarka líf viðkomandi einstaklings og aftra honum frá nýrri og hugsanlega dásamlegri lífsreynslu.
Hingað til hefur enginn dáið af því einu að vera grænmetisæta. Satt best að segja lifa þær oftast lengur og betur en kjötætur og þetta er sannað. Bindindisfólk kann jafn vel að skemmta sér og fólk sem kýs að drekka og að lýsa því yfir að Ameríkanar séu leiðinlegir er vitanlega bara eitthvert jarm sem á ekki við nein rök að styðjast.
Til þess að víkka minn eigin andlega sjóndeildarhring hef ég stundum skemmt mér við að gera hluti sem ég hef talið mér trú um að væru leiðinlegir, erfiðir, jafnvel ómögulegir. Eftir slíkar æfingatarnir uppsker ég oftast frelsistilfinningu mikla, því það er fátt æðislegra en að sigrast á hindrunum, sérstaklega ef það er maður sjálfur eða félagsmótun, sem hefur búið þessar andlegu hindranir til.
Æfingar mínar hafa meðal annars verið fólgnar í því að mæta í líkamsrækt sex daga vikunnar og léttast um átta kíló, gera upp heila íbúð án aðstoðar maka (leggja parket og skamma iðnaðarmenn), fara til útlanda ein míns liðs sem unglingur, borða engar dýraafurðir í fjóra daga, hætta að reykja, vingast við karlrembur, araba og gyðinga, keyra mótorkross-hjól og vélsleða, gera við brauðrist, slíta sambandi við "vin" sem mér fannst leiðinlegur, sauma gardínur og ritstýra blaði.
Með æfingunum hef ég komist að því að það er enginn nema ég sjálf sem segir mér hvar mörk mín liggja og það er gott að hafa einkaleyfi á þeim réttindum.