Múslimar eru góðar og gáfaðar konur
(Stuð milli stríða) MHG veit að Íslendingar og Íranar eiga sitthvað sameiginlegt
Ein af þeim manneskjum sem ég hef lært hvað mest af í lífinu er múslimi.
Þegar við leigðum saman í Kaupmannahöfn hér um árið byrjaði hún oft daginn á að þakka fyrir. Hún þakkaði guði til dæmis fyrir það að við værum myndarlegar og vel gefnar, hún þakkaði fyrir fallega heimilið okkar og hún þakkaði fyrir vinskapinn.
Þessi góða kona (sem þá var rúmlega tvítug) hafði flúið ásamt móður sinni frá Teheran til Kaupmannahafnar um 1980. Þeim mislíkaði stefna Khomeinis og vildu búa við meira frelsi og minni forræðishyggju.
Í Danmörku vorum við útlendingar í landi sem ekki var okkar eigið og eitt af því sem kom svolítið á óvart var að á vissan hátt vorum við, frá Íran og Íslandi, mjög ólíkar Dönum þegar kom að margs konar gildum. Gildum sem fremur er að finna í Íslendingasögunum og persneskum þjóðsögum en Biblíunni og Kóraninum.
Vinkona mín lagði til dæmis mikla áherslu á að vinir óvina manns gætu aldrei verið raunverulegir vinir og veit ég það fyrir víst að þessa vísu hafði hún aldrei lesið:
Vin sínum
skal maður vinur vera,
þeim og þess vin.
En óvinar síns
skyli engi maður
vinar vinur vera.
Lífsreynd sem hún var, eftir að hafa lifað af byltingu og flúið heimaland sitt, vissi hún betur en ég að ekki eru allir viðhlæjendur vinir.
Fordómar eru að dæma fyrirfram það sem maður ekki þekkir og fordómalaust get ég því fullyrt að kynni mín af múslimum hafa verið góð. Í mínum huga eru múslimar gáfaðar og góðar konur sem hægt er að læra sitthvað af; til dæmis þakklæti og varkárni og bið ég því fordómafulla að hika áður en farið er í yfirlýsingarnar.
Við eigum meira sameiginlegt með múslimum en margan grunar.
|