Karlar Grilla, konur sjóða
Það hefur lengi verið ráðgáta fyrir mér hvers vegna flestir karlmenn sýna sérstakan metnað við aðeins eina tegund af matreiðslu. Af einhverjum ástæðum virðist það þykja karlmannlegt að grilla. Og hvers vegna skyldi svo vera? Er það vegna þess að þetta er „hættulegt“?
Það þarf að dreifa kolum. Svo þarf að úða yfir þau stórhættulegum grillvökva. Þar næst þarf að kveikja í kolunum með eldi. Eldurinn þarf að loga glatt í svolitla stund og svo verða kolin að hitna. Þegar þetta er allt orðið eins og best mætti ætla á að leggja kjötstykkin á grillið og snúa þeim svo reglulega við með þar til gerðum grófum töngum. Karlmennska? Ég veit það ekki.
Heitt vatn er hættulegt
Að sjóða mat getur verið alveg jafn hættulegt. Það þarf að hita vatn í potti á sjóðandi heitri hellu. Hellan og vatnið eru svo heit að það er jafnvel lífshættulegt að fá þetta yfir sig. Að sjóða mat getur verið ámóta hættulegt og að flækjast fram á hengiflug. Það er að segja ef maður kann ekki réttu tökin. Ef maður er óöruggur með pott fullan af heitu vatni þá gæti farið svo að vatnið helltist yfir einhvern með hrikalegum afleiðingum.
Cheese serial killer
Hefðbundin hlutverk kynjanna hljóta að mestu leiti að snúast um áhuga þeirra á ólíkum sviðum. Og það truflar mig ekkert sérstaklega mikið að þessi áhugasvið séu oft ólík. Reyndar væri gaman að karlar sýndu almennt meiri metnað við matseld og önnur heimilisstörf. Kannski þyrfti bara að gera þau „karlmannlegri“ til að þeir sýndu meiri áhuga. Kannski væri sniðugt að elda fyrir opnum hlóðum innifyrir? Þá þyrfti að skara eld og bera risavaxna potta um í eldhúsinu. Eins mætti gera eldhúsáhöld karlmannlegri. Allt þyrfti að vera úr börðu járni eða stáli og bera nöfn á borð við Turbo 2000 sleifasett, Jacked Steel þeytari, Cutting edge matvinnsluvél, Evil knivel kökukefli o.s.frv. Ostaskerinn gæti t.d. heitið Cheese serial killer turbo 666. Þetta gæti hugsanlega virkað hvetjandi.
Ber að ofan
Svo mætti líka mælast til þess að þeir væru berir að ofan við matseldina. Af einhverjum ástæðum finnst okkur það ekki óþægileg tilhugsun að sjá fyrir okkur karlmann, beran að ofan með bjór í hönd að grilla pylsur. En um leið og grillarinn er kona, ber að ofan með bjór í annari að grilla pylsur með hinni þá slær einhverju saman í höfðinu og fegurðarskyninu er ógnað á framandi hátt.
Var Gunnar félagsmótaður?
Sumir halda því fram að þetta sé allt saman félagsmótun. Að konur séu félagsmótaðar til þess að vilja elda og halda heimilinu skikkanlegu og karlar félagsmótaðir til að vilja grilla og eiga verkfæratösku. Það má vel vera, en að einhverju leiti hlýtur þetta líka að snúast um áhuga. Kannski félagsmótaðan áhuga? Hugsanlega eru konur leynt eða ljóst hvattar til þess að hafa áhuga á heimilinu á meðan karlar eru hvattir af samfélaginu í heild sinni til að hafa áhuga á öðrum hlutum og finnast það ekki merkilegur metnaður að baka góðar skúffukökur og halda heimili í anda Mörtu Stewart. Af hverju eru konur t.d. ekki jafn spenntar fyrir því að grilla og karlmenn? Af hverju hækkar ekki brjóstkassi þeirra í sumarbústaðnum um leið og þær hella kolum ofan í grillið? Hvar byrjaði þetta? Grillaði kannski Gunnar á Hlíðarenda eða sá ostaþjófurinn Hallgerður um það? Maður spyr sig.
|