(stuð milli stríða) Heimur bestnandi fer
Hrikalega leiðist mér hið sígilda tuð um að heimurinn sé að versna. Kynferðisglæpir hafi aldrei verið fleiri, ofbeldi sé að aukast, börnum líði verr og þar fram eftir götunum. Frá mínum bæjardyrum séð er þetta allt að skána og ef fer sem horfir þá náum við fljótlega því göfuga markmiði að sameinast og búa til betri heim.
Tökum sem dæmi yfirlýsinguna um að kynferðislegt ofbeldi sé að aukast og að klámgláp sé skaðvaldurinn. Hvernig dettur nokkrum manni í hug að lýsa slíku yfir? Kynferðisofbeldi var daglegt brauð í torfkofunum. Ég veit ekki betur en að árið 1627 hafi hingað komið fullt skip af mönnum sem nauðguðu allri vestmanneysku kvenþjóðinni á einu bretti, og varla voru þeir að horfa á klám í káetunum á leiðinni til landsins?
Ég veit heldur ekki betur en að einelti og almennt ofbeldi gegn börnum hafi nánast verið látið afskiptalaust hér áður. Kennarar börðu á börnum ef svo bar undir og ekkert fundið athugavert við það. Börn voru barin af öðrum börnum og fullorðnum, bæði heima hjá sér og í skólanum, og þetta var kallað "ögun" eða "stríðni".
Hér áður fyrr áttu konur líka í vandræðum með að skilja við karlana sína ef þeir voru leiðinlegir. Það gat leitt til þess að þær þurftu að láta frá sér börnin eða gerast ráðskonur. Í dag þarf engin kona að sitja uppi með súran karl heldur geta þær pantað skilnað og plummað sig fínt, sem er hreinlega frábært. Einstæð móðir er sjálfstæð móðir. Og alkarnir? Þeir hafa SÁÁ og 12 sporin og geta sannarlega fengið hjálp til að venja sig af vitleysunni.
Í dag njótum við þess að velta okkur upp úr Mars eða Venus, spelti eða hveiti, Epal eða IKEA og allt saman er þetta undursamlegur lúxus og afleiðing þess að heimur bestnandi fer.
Auðvitað getum við þó alltaf á okkur blómum bætt. Það má satt best að segja bæta úr öllu svo lengi sem það er ekki fullkomið og hvað er fullkomið annað en draumalönd og útópíur? Er því ekki bara mál að brosa? Þetta fer síbestnandi.
|