mánudagur, apríl 16, 2007

Siggi og kettirnir í lífi hans

Hann Siggi vinur minn á fljótlega eftir að fá sér kött sem kúkar í hornin. Þennan kött mun hann kalla Frú Sigríði. Þegar hann fær nóg af Frú Sigríði og kastar henni á dyr, mun ekki líða langur tími þar til hann finnur sig knúinn til að taka inn á sig annann kött. Reyndar eftir nokkurra vikna hvíld, en sjáiði til, annar köttur mun stíga innfyrir stokkinn hans Sigga.
Þann kött kallar Siggi Júdas.

Til að byrja með verður Siggi mjög hrifin af þessum ketti. Hefur hann að jafnaði á heilanum. Hugsar til hans á daginn og dreymir á nóttunni. Þegar kötturinn byrjar að klóra í húsgögnin á Siggi eftir að láta það fara í taugarnar á sér en samt... æ, hann er svo sætur.
Húsgögnin eiga eftir að skemmast og eftir því sem þau tætast upp fara að renna tvær grímur á Sigga og hrifningin minnkar smátt og smátt, enda er erfitt að halda í hrifningu á kvikindi sem tætir upp húsgögnin manns.

Siggi fær að lokum ógeð. Gargar og fleygir kisa með útglenntar klærnar á dyr. Hvílir sig í smástund og nýtur þess að vera einn... en viti menn! Mætir ekki læða eftir mánuð.

Þessi feita, merkta læða heitir Fjóla og er alls ekki til trafala. Hefur sig hæga. Malar þegar Siggi strýkur henni. Heimtar ekki mat í tíma og ótíma, tætir ekki húsgögn og kúkar ekki í horn.
Í fyrstu á Siggi erfitt með að venjast því að hafa svo spakan kött á heimili sínu. Hann bíður eftir sprengjunni, en aldrei kemur hún. Hvergi er kúkað og ekkert er tætt. Fjóla lifir reglusömu lífi. Kemur inn um gluggann, klukkutíma eftir að hún fer út um hann og skilur eftir sig undarlega fá spor.

Siggi fer í gegnum doðatímabil þar sem honum hálf leiðist Fjóla af því hún skapar enga spennu, en með tímanum byrjar honum að líka þetta ástand. Fjóla er kannski ekki jafn slikk og Frú Sigríður og Júdas, en hún hefur notalega nærveru og Siggi veit alltaf hvar hann hefur hana. Siglingin á ólgusjónum sem kalla má lífið hans Sigga hefur leitt til þess að honum verður á köflum svolítið andlega bumbult, en Fjóla virðist hafa róandi áhrif á hann. Hann hefur hana ekki á heilanum og það finnst honum gott, því þá má nýta heilann til þarfari verka. Það er ekki eins og Siggi þurfi ekki á heilanum sínum að halda. Heilinn er hans lifibrauð.

Eftir því sem samverustundir þeirra Sigga og Fjólu verða fleiri, styrkist samband þeirra og brátt verður hann jafn hændur að henni og hún að honum. Hann hlakkar til að koma heim til að horfa á Lost og klappa Fjólu sinni. Hann veit að hann þarf ekki að þrífa kúk úr hornum eða þurfa að taka við klóri þegar hann langar að klappa. Fjóla er góð og það kann Siggi vel að meta.

Gæti það hugsast að breyttur Siggi kjósi breyttar áherslur í lífi sínu eða snýst þetta allt bara um kettina?

Maður spyr sig.