miðvikudagur, apríl 04, 2007

Konurnar í Njálu-Grimmar og góðar


Var að finna þessa ritgerð sem ég skrifaði eitt sinn með blýanti um konurnar í Njálu.
Here goes:

Konurnar í Njálu
-Grimmar og góðar

Þó svo að Brennu-Njáls saga fjalli fyrst og fremst um karlmenn og afrek þeirra innanlands sem utan, er ekki hægt að segja að konur eigi þar ekki stóran þátt í gangi mála.

Fyrsta vísbendingin er strax í fyrsta kaflanum þar sem Hallgerður Höskuldsdóttir er kynnt til sögunnar. Hún gengur til föður síns, sem smellir á hana kossi og um leið segir Hrútur bróðir hans að honum þyki hún vissulega falleg, en bætir því við að margir eigi eftir að gjalda þess og að auki skilji hann ekki hvaðan "þjófsaugu" hennar hafi komist í ættir þeirra bræðra.
Þessi fallega, en jafnframt þjófótta kona hrindir svo af stað þeirri atburðarrás sem að lokum dregur þriðja mann hennar til bana, þegar hún stelur, eða lætur stela, matvælum frá nágranna þeirra.

Flestar konur í sögunni eru réttlausar þegar kemur að makavali. Í upphafi er Hallgerður t.d. ekki spurð hvort hún vilji giftast fyrsta manni sínum, Þorvaldi, og það leiðir til þess að fóstri hennar, Þjóstólfur, drepur hann til að hún geti gefist í annað sinn. Þetta fyrsta morð er heldur ekki það síðasta af hennar völdum. Í næsta sinn sem hún giftist ákveður Höskuldur faðir hennar að kannski sé skynsamlegra að hafa hana með í ráðum. Hún er þó eina konan í bókinni sem fær þennan beina rétt, enda með ógnvekjandi skap og nánast yfirnáttúrulegt vald yfir karlmönnum, hvort sem er pabba sínum, þræl, frændum, eiginmönnum eða öðrum.

Síðar í sögunni er kynnt til sögunnar Hildigunnur Starkaðardóttir og henni svipar nokkuð til Hallgerðar hvað varðar lýsingu höfundar á henni. Hann segir hana skörung mikinn og kvenna fríðasta sýnum en jafnframt skapharða og grimma. Hildigunnur tekur líka í svipaðan streng og Hallgerður þegar kemur að því að gefa hana. Þá setur hún upp kröfur um að tilvonandi hækki í tign og fái goðorð því annars vilji hún hann ekki.
Svona kröfur hefðu þessar dömur eflaust ekki getað sett upp ef þær væru ekki af tignum höfðingjaættum, með gott útlit, harða skapsmuni og flott hár til að fleyta sér áfram.

Í Njálu er mikil áhersla lögð á stolt, mannorð, tryggð og aðrar dyggðir. Þetta á jafnt við um konurnar sem mennina. Þær vilja ekki fyrir nokkra muni láta móðga sig eða að aðrir troðist yfir á þeirra yfirráðasvæði án þess að viðkomandi sé látinn gjalda þess. Þetta kemur sérstaklega vel fram í rimmu þeirra Hallgerðar og Bergþóru um húskarlavígin.

Konurnar í Njálu krefjast líka hefnda líkt og karlarnir og sýna hver annari gagnkvæman skilning í þeim málum eins og sést þegar Hróðný, elja Bergþóru, fær Skarphéðinn til að veita hálfbróður sínum nábjargir.
Það að þær eljur, Hróðný og Bergþóra, hafi virt hvor aðra og ekki amast við því að deila með sér Njáli, segir mér líka að innan þess valdasvæðis sem þær áttu sér hafi gilt ákveðnar og skýrar reglur um hvað væri í lagi og hvað ekki.

Það sem mér finnst allra skemmtilegast við kvenpersónurnar í Njálu er sú staðreynd að þær eru ekki á nokkurn máta einhæfar eins og tilhneigingin vildi oft verða eftir að kristnin festi sig almenninlega í sessi. Þá voru konur alltaf annaðhvort með hjarta úr gulli eða grjóti, en Njálukonur hafa bæði. Þær sýna merki um ást, tryggð og blíðu en geta líka verið grimmar, hefnigjarnar og skapvondar eins og raunveruleikinn ber vitni um að konur séu.
Þessari hráu mynd af konum tók ég fagnandi enda löngu orðin þreytt á hugmyndinni um nornina og dísina. Þessvegna var virkilega hressandi að fá að kynnast persónum á borð við Hallgerði, Hildigunni, Bergþóru og Gunnhildi. Konum sem kalla ekki allt ömmu sína, krefjast réttar síns og hafa hvatir sem oft eru ætlaðar körlum einum.
Eflaust væru þessar konur taldar geðveikar í dag og allra helst ráðlagt að taka róandi og slappa svolítið af -en hvar er dramað í því?

Í öllum konum blundar lítil og bæld Hallgerður; dama sem er gefin fyrir drama -og með því að lesa um hana og hinar dömurnar í Njálu fáum við, þó ekki sé nema í örskamma stund, að fljóta með ímyndunaraflinu aftur í forneskju þar sem konur máttu vera forhertar og frekar og lausar við þær "viðjar" sem seinni tíma siðferði hneppti þær í.