fimmtudagur, mars 29, 2007

Árur og umburðarlyndi

Svona upp úr 1988 byrjaði ég að hata allt sem kallast nýöld. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að byrja að lýsa því hvernig og hversu mikið ég hataði allt þetta en ég get fullyrt að það náði suðupunkti einhverntíma á tónleikum í Kristíaníu í kringum 1995 þar sem við vinkona mín , írani sem líka hataði nýöldina af öllu hjarta, hrópuðum ókvæðisorð og svívirðingar að einhverjum síðhærðum satínmussugaurum uppi á sviði. Þeir stóðu þarna helvítin, og létu hárið lafa og hnén dúa á meðan þeir önduðu eitthvað um energy og kristalla út um blautar varirnar og okkur leið eins og The Fog (e. John Carpenter) væri að falla yfir salinn, nema hvað að út úr þessari þoku komu ekki ormétnir sjómenn heldur kristallasjúgandi skrýmsli með panflautur og bongótrommur. The horror... the horror....

Hryggspjalda og höfuðbeinanudd
Svett
Einhyrninga og höfrungablæti
Árur
Kristallar og grjót
Miðlar og skyggnilýsingar

... allt þetta gerði mig smátt og smátt níhílískari með hverjum deginum.

Verstar þykja mér áruteikningar sem gerðar eru með þurr-pastel litum á svartan pappír. Já, þetta er mjög spesifískt, en... ég þoli þetta ekki. Áruteikningar eru á topp tíu listanum yfir það sem ég þoli ekki á jörðinni.

Ég held Satan eigi lítinn þroskaheftan frænda sem er hræðilega illa innrættur og ég sé þetta rauðhærða kvikyndi fyrir mér þar sem hann situr fölur og frussandi í horni með nýaldarfjarstýringuna og fjarstýrir fólki sem heldur að það sé með svo magnaða sjón að það sjái framtíð, nútíð og fortíð -allt í einhverju litablörri í kringum aðra.

Árið 1997 urðu svo reyndar stór þáttaskil í mínu lífi sem leiddu til þess að ég hætti að vera níhílisti og fór að trúa því að lífið hefði einhvern tilgang.

Smátt og smátt fór ég að einnig að verða umburðarlyndari gagnvart meðbræðrum mínum og systrum og í dag er svo komið að eina fólkið sem ég tel óæðra sjálfri mér eru stuttklipttar, akfeitar, sandalakellingar í flíspeysum, rétttrúnaðar feministar, fólk sem heldur að það sé spes en spesar á sig með óverkilli í ósamstæðu fatavali og samlitast þannig þjáningarsystkinum sínum í spesinu, ofdekrað garðabæjarfólk, heimskir karlmenn sem halda að þeir séu það ekki og þá sér í lagi heimskir, ungir karlmenn í jakkafötum sem halda að þeir séu ekki heimskir... og fótboltabullur, stelpur/konur sem þykjast vera skófíklar af því Carrie í SATC átti að vera það og afgreiðslukonan í versluninni Drangey.

Já, og síðan 97 hefur þroskaleiðin bara verið upp á við og ég hef tekið að glansa og líkist Jesú meira og meira með hverjum deginum en....

ég mun aldrei umbera þurrpastel teikningar af árum. Aldrei.