sunnudagur, febrúar 25, 2007

Stuð milli stríða

Þessi pistill minn kom í Fréttablaðinu í dag. Harðsoðin útfærsla af einhverju sem ég var búin að skrifa hér á bloggið:

Stuð milli stríða Ættbálkurinn á eyjunni í norðurhafi
margrét hugrún gústavsdóttir er næstum því komin yfir menningarsjokkið

Ég er nokkuð sátt við að vera Íslendingur en stundum kemur þó fyrir að ég skammast mín fyrir þjóðerni mitt eins og mamma sem skammast sín fyrir æst og nammisjúkt barn í Hagkaupum.

Þetta byrjaði eftir að ég flutti til Íslands aftur eftir að hafa búið í nokkur ár erlendis. Glöggt er gests augað og enn gleggra er auga heimamanns sem snýr aftur eftir langa fjarveru. Ég fór að taka eftir því að mannasiðir okkar voru oft af skornum skammti. Það var óspart gripið fram í, talað með fullan munn og ruðst fram fyrir í röðum. Eitthvað sem hefði aldrei gerst í landinu þar sem ég bjó...ekki meðal þeirra upplýstu.

Svo fór ég í leikhúsið og sá uppfærslu á Sjálfstæðu fólki. Mig langaði til að loka mig inni í viku eftir það því mér fannst allt í einu svo hörmulegt að vera komin af svona miklum vesalingum.

Núna er ég búin að jafna mig ágætlega á þessu, enda tíu ár frá því ég varð snúbúi (Íslendingur sem snýr til baka). Ég er ágætlega sátt við að vera af risastórum ættbálki sem býr á eyju í norðurhafi á milli Grænlands og Færeyja. Ættbálki þar sem ættir eru raktar, útlendingar teljast enn svolítið ógnandi og þorpsandi ríkir þegar frægur, erlendur leikari gerir sér dælt við heimamey.

Mér finnst hálf krúttlegt að við höfum ekki borðað annað en súra punga og sviðin kindahöfuð í fleiri, fleiri hundruð ár, misst tennurnar um tvítugt, gengið í roðskóm og með skotthúfur, getið lausaleiksbörn og stigið hliðar saman hliðar, svo lengi sem það var ekki bannað. Mér finnst líka pínu krúttlegt að við höfum ekki þekkt fyrirbæri á borð við tísku, arkitektúr, myndlist, matargerð eða klassíska tónlist á meðan þessi fyrirbæri voru að þróast, vaxa og dafna í nágrannalöndunum yfir aldirnar. Að fyrstu blökkumennirnir hafi sest hér að um 1985, að áfengi og útvarp séu eignir ríkisins og að hedónískum dónum sé úthýst af eyjunni þegar svo ber undir.

Satt best að segja er þetta alveg spes. Svo spes að ég get ekki annað en verið ánægð með að hafa fæðst hér, –því hver vill ekki vera spes?