Imurinn
Yfirleitt finnst mér manneskjan fremur ágæt skepna og þar með talin ég sjálf.
Ég sé okkur oft sem apa með gleraugu. Fremur kjánalegt dýr sem getur þó gert hreint stórfenglega hluti. Við erum ótrúlega mögnuð og ótrúlega ómerkileg í senn. Oftast hugsa ég samt mjög lítið á þessum nótum og er bara Jóa Jóns sem vinn frá 9-5 og hlakka til að fara í sumarfrí. Þetta var samt ekki þannig um helgina þegar ég átti tvær óhemju níhílískar og furðulegar lífsreynslur.
Fyrri upplifunin var á föstudagskvöldið síðasta.
Þá fór ég í bíó sem er ekki í frásögur færandi fyrir utan það að myndin, Foreldrar, var hreint frábær.
Þegar myndinni lauk stóðu allir upp eins og von er og vísa og ég og bíópartnerinn minn stóðum líka upp. Þetta var svolítið eins og þegar flugvél lendir. Það standa allir upp en enginn kemst áfram og eftir því sem við stóðum lengur því verr fór mér að líða í nefinu. Það var eins og ég fyndi lyktina af öllum sem stóðu í kringum okkur. Öllu sem þetta fólk hafði borðað undanfarna daga, lyktina af yfirhöfnum þeirra sem höfðu ekki farið í þvott í nokkur ár og lyktina af hári sem safnar yfirleitt í sig allskonar lykt. Ég var eins og náunginn í Ilminum eftir Patric Suskind. Fann alla hugsanlega lykt sem hægt var að finna. Þetta hefur komið fyrir mig áður og metið var held ég þegar ég fann lykt af köldu vatni sem var í 15 metra fjarlægð frá mér. En að standa svona innan um mannskepnur og finna af þeim sterka lykt, öllum í einu, það var ekki skemmtilegt.
Á laugardag lenti ég aftur í sambærilega óþægilegri lífsreynslu þar sem ég sat innan um hóp af fólki. Flestir sneru að mér en ég hafði komið mér þannig fyrir að það fór ekki mikið fyrir mér.
Ég hafði nægan tíma til að horfa á fólkið og aftur upplifði ég þessi undarlegheit sem ég hafði lent í kvöldið áður, nema hvað að nú var það ekki lyktin sem truflaði mig heldur andlitin. Hrukkurnar. Húðin. Þurrt hárið. Aldurinn. Allir að eldast. Eyðast upp. Frumu fyrir frumu.
Enginn með mynd uppi á háalofti eins og Dorian Gray.
Ég sá ekki sálirnar fyrst um sinn. Sá bara holdið og hold er sannarlega ekkert sérlega fallegt eitt og sér. Þetta var skelfilega níhílískt ástand og það er ekki skemmtilegt. Svo rann það af mér og lagaðist. Ég kipptist í liðinn á svona 10 mínútum. Varð aftur api með gleraugu sem plokkar flær af öðrum öpum... öpum sem mér þykir vænt um.
|