miðvikudagur, október 04, 2006

Reglusamt líf-lítið að segja?

Líf mitt er í rosalega föstum skorðum. Dagsrútínan er í mjög staðföstu og þéttu tempói, og reyndar allt mitt líf nánast fyrir utan kannski blessaðann kaótíska kærastann minn, en almættið forði mér frá því að skrifa veflóka um þann ágæta mann. Ég hef aldrei skilið fólk sem dettur í það að fara að skrifa á fullu um sína nánustu... eða jú... ég skil fólks sem notar sína nánustu sem efnivið í bækur (Deconstructing Harry), en ekki fólk sem gerir bloggfærslur um hvernig Jói eða Sunna Dröfn séu nú að standa sig í sambandinu.
Ég skrifa varla hvað við gerum saman frá degi til dags. Það heyrir til undantekninga. Skrifa reyndar mjög sjaldan hvað ég sjálf geri frá degi til dags. Kannski ætti maður samt að byrja á því?

Spennandi dagur í lífi Margrétar:

Vaknaði kl sjö, klæddi Eddu og mig, gaf henni hálfan banana. Þvoði hárið á mér. Vakti Tóta. Við Edda sögðum bless og fórum út í bíl. Keyrði hana á leikskólann. Keyrði í vinnuna og hlustaði á RÚV. Bölvaði því að útvarpið mitt er nánast fast á létt 96,7 og Bylgunni sem mér finnst hreint óþolandi útvarpsstöð. Mætti tímanlega. Sagði hæ við Roald og Kristínu. Fór niður og náði í rúnstykki og safa. Upp aftur og fletti blaði. Byrjaði að vinna...

Vinna:

Ilmvötn.
Útivist.
Esther.
Tíska.

...og eitthvað meira sem ég man ekki.

Pabbi kom í vinnuna með bæklinga frá Ítalíu þar sem hann var að smakka trufflur og vín. Sagði okkur Tryggva trufflusögur. Trufflur eru mjög merkilegur matur. Kíló af trufflum kostar 360.000 kr. Til að finna trufflur eru ýmist notuð svín eða hundar.

Fórum í kaffi og mat. Maturinn var einhver slímug núðluhrúga á disk. Kaffið var grilluð samloka, kók og safi. Töluðum m.a. um Matt Damon, Southpark, homma, Brad Pitt, Angelinu, fólk sem missir kúlið, reunion, rassmök, anorexíu, tilgerðarleg samtöl og það að vera ungleg/ur.

Kláraði vinnudaginn, sótti Eddu, fór í fiskbúð. Við keyptum ýsu. Héngum aðeins í garðinum. Edda bar steina úr hrúgu og yfir í poll. Stúderaði lögmálið um orsök og afleiðingu. Fórum inn til okkar. Ég kveikti á sjónvarpinu og Edda fór að horfa á Dóru landkönnuð meðan hún kúkaði í bleyjuna sína meðan ég dottaði. Kúkalyktin fyllti stofuna svo dott varð ómögulegt. Ég skipti á henni.
Hún fór að rogast með gítar og datt. Ég kyssti á bágtið. Sauð ýsuna. Tóti kom. Átum öll ýsu meðan ég urraði á hundinn að koma sér frá barninu sem var mjög duglegt að deila matnum sínum með dýrinu. Edda í bað, náttföt, tannburstun, lestur, rúm. Ganga frá. Kveikja á tölvu. Sækja bíómyndir. Snemma að sofa.