fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Kvikmyndagagnrýni-The Lady in the Water


Lady in the Water


Fallegt, hugvekjandi og hrollvekjandi ævintýri

Leikstjóri Lady in the Water, M. Night Shyamalan, lá yfir teiknimyndasögum sem barn og í dag hefur hann valið að gera ævintýramyndir, sem líkt og gömlu ævintýrin innihalda ótrúlega atburðarrás, en um leið einhver sérstök skilaboð til lesandans.
Skilaboðin í Sixth Sense voru: Ekki er allt sem sýnist. Skilaboðin í Signs sögðu okkur eitthvað um að tilviljanir eru kannski ekki alltaf tilviljanir og skilaboðin í Lady in the water segja okkur eitthvað um að við erum öll með miklvægt hlutverk í lífinu.
Sögusvið myndarinnar er lítil blokk og aðal söguhetjan er húsvörður sem er snilldarlega leikinn af Paul Giamatti sem margir muna eftir sem ástsjúka rithöfundinum úr myndinni Sideways.
Eina nóttina finnur hann vatnadís í sundlaug blokkarinnar sem biður hann að koma sér heim og með því að “yfirheyra” kínverska konu sem býr í blokkinni um gamalt asískt ævintýri, lærir hann smátt og smátt hvernig hægt sé að skila Sögu, (en vatnadísin heitir Saga), aftur á sinn stað. Þessi þáttur, eða þetta “tvist” fannst mér einna skemmtilegast við myndina. Plottið vindur af sér um leið og maður fær alltaf að heyra meira og meira af gamla asíska ævintýrinu. Enginn veit hvað gerist næst þar sem við fáum alltaf ævintýrið í smá skömmtum. Vatnadísin sjálf heitir Saga og hún er Saga sem hjálpar fólki að sjá hlutverk sín í lífinu. Mjög úthugsað og skemmtilegt.
Myndin hefur ekki fengið góða dóma í Bandaríkjunum, enda gerir M. Night Shyamalan grín að kvikmyndagagnrýnendum í myndinni með því að láta einn hrokafyllsta og leiðinlegasta karakterinn vera kvikmyndagagnrýnanda. Einkar áræðið og skemmtilegt af hans hálfu. Persónulega fannst mér Sixth sense alltaf besta mynd M. Night Shyamalan. Þær sem komu á eftir náðu aldrei að skara framúr henni, en Lady in the Water stendur Sixth Sense jafnfætis. Ekki hvað varðar hrylling, heldur einfaldlega gæði, enda er myndin ekki beint hrollvekja þó að í henni séu nokkur hrollvekjandi atriði.
Ég gef Lady in the Water fimm stjörnur enda fannst mér hún hafa alla þá kosti sem góð kvikmynd þarf að hafa. Ég varð spennt, ég fékk hláturskast tvisvar, mér fannst hún falleg, vel leikinn, hún var djúp, hafði áhrif á hugsun mína og mér leiddist aldrei.
Ég var eiginlega eins og sjö ára krakki að hlusta á gott Grimms ævintýri, út alla myndina.