sunnudagur, júlí 30, 2006

Fiðrildi

Hér er skáldskapur eftir mig. Veit ekki hvað svona brotaskáldskapur kallast. Þetta er eins og blaðsíða úr skáldsögu. En sú saga er ekki til. Allavega ekki ennþá.

Hún kjagaði um íbúðina, akfeit með pilluglas í annari hendi og samankreistan Salem í hinni. Talaði eitthvað um að hann hefði nú alltaf verið svo krúttlegur en hún réði ekkert við sig... réði bara hreinlega ekkert við sig.
Svo setti hún spóluna í tækið, girti niður um sig og fór að grenja. Benti ásakandi á kviðinn á sér og sagði "Sérðu hvað hann gerðið Sérðu hvað hann gerði mannandskotinn, helvítis krúttið, helvítis...!"
Það var ekkert að sjá á kviðnum á henni annað en ör eftir botnlangauppskurð og húðflúr. Hjarta sem á stóð Robbi að eilífu.
"Hver er Robbi?" spurði ég.
"Nú, bróðir hans, bróðir hans heitir Robbi. Hann lét mig tattúvera þetta á mig af því hann hélt því fram að ég elskaði Robba".

Myndin byrjaði. Hreyfð, aðeins úr fókus og sérlega illa tekinn. Hún sirka þrjátíu kílóum léttari, í náttkjól og hermannaklossum með svartar fléttur í hárinu. Rosalega hress á kojufylleríi. Hún horfði á myndina og tárin fylltu dópuð og blóðhlaupin augun.
"Hann tók þetta, Robbi tók þetta. Við vorum bara vinir, bara vinir, ég sagði honum það alltaf en hann vildi bara ekki trúa mér. Lét mig tattóvera þetta á mig þegar við fórum til Köben. Náunginn sem gerði tattóið var ferlega flottur. Bjó í Kristjaníu og seldi hass og eitthvað fleira. Gaf mér rosalega jónu á undan og setti Janis á.
Kannski var það þessvegna sem ég lét hafa mig út í þetta. Fyrst ætlaði ég bara að fá mér fiðrildi. Ég elska sko fiðrildi, þau eru svo frjáls. Mér finnst ég stundum vera fiðrildi."

Ég horfði á hana. Það sem hún var að segja átti ekkert skylt við raunveruleikann. Spikfeitur pillufíkill á ljótum sófa í ljótri íbúð. Fyrir fimmtán árum kannski gella, en í dag, aumingi. Sjálfsskipaður öryrki. Fiðrildi... Nei. Öllu heldur mölfluga.
"Hvað varð svo um Robba?" spurði ég um leið og hún dró buxurnar lengra niður um sig.
"Ertu ekki til í að hætta að draga niður um þig buxurnar, ég er ekki að fíla þetta"...
Hún horfði aftur ásakandi á mig. Horfði ásakandi á allt.
"Ég fer bara úr buxunum ef mig langar. Ég á heima hérna og geri það sem mér sýnist!"
"Já, gerðu það sem þer sýnist," sagði ég og gekk að útidyrunum. "Ég er farinn, og ekki hringja í mig aftur. Ég nenni ekki að reyna að hjálpa þér lengur. Þú vilt bara vera í þessari eymd. Þú kaust hana. Ég get ekki reddað út úr einhverju sem vilt vera í."

Ég lokaði á eftir mér og gekk að lyftunni. Skítsama um hana. Skítsama um Robba og það sem var á milli þeirra. Innst inni hugsaði ég með mér að það væri flott ef hún myndi láta verða af þessu. Drepa sig bara. Þá værum við laus við hana. Fiðrildið gæti reynt að fljúga fram af svölunum. Blaka spikfeitu vængjunum sínum og enda ofan á ruslabílnum með samankreistan Salem pakkann á hendinni og verkjatöflur í maganum. Freedom is just another word for nothing left to loose myndi hljóma út um svaladyrnar og hún kominn á sama stað og Janis.