Föstudagurinn stutti
í fyrradag skrifaði ég færslu sem fór fyrir bí en ég náði að vista hana og geyma á skjáborðinu. Hérna birtist hún... loksins...
PERSÓNULEGA FRÉTTABRÉFIÐ:
Vaknaði kl 8 í morgun. Edda vaknar alltaf snemma þannig að ég vakna alltaf snemma með henni. Hvort sem það er frí eður ei. Við átum eitthvað og fórum svo niður að sjó. Þar lömdum við langt stálrör með flugeldaspítum. Svo ráfaði hún af stað og vildi fara inn í hina ýmsu garða við Sörlaskjólið. Það var svolítill vindur og Edda rak út úr sér tunguna eins mikið og hún gat. Hana langaði til að labba og pirraðist rosalega þegar ég tók hana upp til að ganga yfir Nesveginn.
Svo fórum við inn í okkar eigin garð og þar hittum við ógeðslega hressan, svartan kött sem setti Eddu í tilfinningalegt uppnám. Hún valt á hliðina og sagði tsssss...tzzzz...tssssss... á meðan hún benti á köttinn. Svo hvarf hann og birtist til skiptis og í millitíðinni hlóðst Edda upp af eftirvæntingu og spennu sem var reglubundið tappað af í tzzzzz...tsssssss.
Nú... svo fórum við inn og síðan höfum við báðar borðað og sofið. Hún festi bursta í hárinu á sér, dreifði rúsínum um stofuna, dansaði við Djangó Reinhart, rústaði baðherberginu og núna er hún að horfa á Bóbó bansa en ég er búin að tala í símann í 39 mínútur, þvo ullarþvott, drekka kaffi, lesa hálfa síðu í Verónika ákveður að deyja, taka til eftir Eddu og búa um rúmið. Núna er ég aðeins að spá í að klæða mig... svo ætla ég að elda kjúkling og fá þrár karlverur og einn kvenkyns hund inn til mín.
Tsssss...tzzzzzz...
|